Innlent

Stjúpfaðir Eiríks Guðbergs: "DV drap ekki Gísla, hann drap sig sjálfur"

„Ísafjörður er góður bær og það er alveg æðislegt að búa þar. Ég vildi óska þess að einhver hefði sagt eitthvað við mig, ef einhver hefði vitað af þessu - en hvers vegna enginn gerði það, það getur enginn svarað því held ég," segir Stefán Torfi Sigurðsson, stjúpfaðir Eiríks Guðbergs Stefánssonar, sem er annar af þeim tveimur sem kærðu Gísla Hjartarson fyrir kynferðisbrot í desember árið 2005.

Stefán Torfi var í viðtali við Kastljós í kvöld en Eiríkur Guðberg og Hilmar Örn Þorbjörnsson stigu fram í þættinum í gær og lýstu því kynferðisofbeldi sem þeir urðu fyrir af hendi Gísla þegar þeir voru á unglingsaldri. Gísli framdi sjálfsvíg í byrjun janúar 2006, eða sama dag og umtalað tölublað DV kom út.

Stefán Torfi lýsti því hvernig Gísli var búinn að hóta Eiríki, til dæmis að ef hann segði frá ofbeldinu myndi mamma hans og pabbi missa vinnuna, og verða „aumingjar og ræflar í samfélaginu."

Eiríkur ákvað að segja foreldrum sínum frá ofbeldinu eftir að mynd birtist í Séð og heyrt af bróður hans, sem er 8 árum yngri, Gísla Hjartarsyni og Össurri Skarphéðinssyni saman. Eiríkur lýsti því í gær að þá hafi hann hugsað að litli bróðir sinn væri næstur og ákvað að hringja í pabba sinn - og segja frá.

Eiríkur Guðberg kærði Gísla 22. desember árið 2005 fyrir kynferðisbrot og lýsti Stefán Torfi því að það hafi verið eins og Gísli hafi lokað sig af, hann hafi kannski séð hann einu sinni í desember-mánuði.

„Jólin líða og áramótin, ég frétti svo af því eftir áramótin að lögreglan hafði farið heim til Gísla. Svo veit ég ekki fyrr en hann er á forsíðu DV og búinn að hengja sig," sagði Stefán Torfi. „DV drap ekki Gísla, hann drap sig sjálfur. Við hjónin voru alltaf sannfærð um það að hann myndi enda svona, það var eitthvað sem við töldum bara - hann hefði ekki manndóm til að horfast í augu við þetta."

Fyrir nokkrum árum reyndi Eiríkur Guðberg að hengja sig og var honum bjargað á síðustu stundu. „Við vöknum við öskur. Mamma hans hendist niður og ég fast á hæla hennar. Þá hafði hann reynt, nei ekki reynt, þá var búinn að hengja sig og mamma hans búin að losa hann niður," sagði hann.

Stefán Torfi blés í Eirík og hnoðaði þar til hann tók andköf. Hann var síðar fluttur á sjúkrahús.

Hann segir að þessi sjálfsvígstilraun Eiríks Guðbergs sé bein afleiðing af því kynferðisofbeldi sem hann hafði orðið fyrir af hendi Gísla á unglingsaldri.

Eiríkur Guðberg lýsti því í gær að hann væri búinn að fyrirgefa Gísla, það hafi hann gert þegar hann var úti á sjó fyrir nokkrum árum. Stefán Torfi segist ekki vera búinn að því. „Nei, en ég þarf að gera það - ég þekki ferlið og allt, en nei ég er ekki búinn að því. Ég trúi því bara að hann verði dæmdur annars staðar."

Kastljós þáttinn má sjá hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×