PSG endurheimti þriggja stiga forystu á toppi frönsku úrvalsdeildarinnar með 2-0 sigri á Marseille í kvöld.
David Beckham var í leikmannahópi PSG í fyrsta sinn síðan hann samdi við liðið og kom inn á sem varamaður á 76. mínútu. Annar Englendingur, Joey Barton, spilaði allan leikinn með Marseille.
Fyrra mark leiksins kom strax á elleftu mínútu en það var sjálfsmark Nicolas N'Koulou. Lucas Moura átti skot að marki sem breytt um stefnu, fyrst af Barton og svo N'Koulou, sem fékk markið skráð á sig.
Zlatan Ibrahimovic innsiglaði svo sigurinn með marki í uppbótartíma. Beckham átti þátt í markinu en hann gaf fína sendingu á Jeremy Menez sem lagði upp markið fyrir Zlatan. Svíinn skoraði af stuttu færi en þetta var hans 22. mark á leiktíðinni.
PSG er með 54 stig á toppnum og þremur stigum á undan Lyon. Marseille er í þriðja sætinu með 46 stig.
