Innlent

Hvítvínssala dregst saman vegna veðurs

Veðrið hefur líklega haft áhrif á hvítvínssölu.
Veðrið hefur líklega haft áhrif á hvítvínssölu.
"Við ímyndum okkur að þetta tengist veðrinu þó við getum ekki alveg fullyrt um það," segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðarforstjóri ÁTVR. Svo virðist sem veðrið hafa haft áhrif á drykkjumenningu Íslendinga því sala á hvítvíni hefur dregist töluvert saman í ár samanborið við það síðasta.

Um 556 þúsund lítrar af hvítvíni voru seldir fyrstu sex mánuði síðasta árs en í ár nemur salan um 542 þúsund lítrum. Munar þar um 2,5%.

"Ef við miðum við stóru Vínbúðirnar á höfuðborgarsvæðinu er samdrátturinn í hvítvínssölunni um 5,1% en á Akureyri hefur orðið 0,5% aukning í hvítvínssölunni," segir Sigrún Ósk. Þess má geta að mun sólríkara hefur verið norðan heiða en á höfuðborgarsvæðinu í sumar.

Mesti samdrátturinn er í Vínbúðinni í Austurstræti en þar er breytingin 10,6% á milli ára.

"Þetta eru staðreyndir en það er erfitt að fullyrða eitthvað um þær. Maður getur kannski leyft sér að draga þá ályktun að veðrið hafi eitthvað með þetta að gera," segir Sigrún Ósk.

Í heild hefur áfengissala dregist saman um 1,4% það sem af er ári. Íslendingar hafa drukkið mest af bjór, eða um 6,5 milljónir lítra, en í fyrra voru það um 6,7 milljónir lítra.

Sprenging hefur orðið í sölu á svokölluðu ávaxtavíni, síderum á borð við Sommbersby, og hefur sala á því farið úr 58 þúsund lítrum í 118 þúsund lítra. Nemur aukningin um 103%.

Nánari upplýsingar má finna hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×