Skoðun

Spillingin er alls staðar

Arnór Bragi Elvarsson skrifar
Í Háskóla Íslands sitja um það bil fimmtán þúsund manns á skólabekk. Það eru u.þ.b. 5% þjóðarinnar. Til samanburðar er stærsta fyrirtæki landsins, Bakkavör Group, með 18 þúsund starfsmenn um allan heim. Háskólinn er nokkuð stórt batterí.

Í miðri kosningabaráttu til setu í Stúdentaráði kemur upp sú staða að birt er frétt um tvo ráðsmeðlimi úr Stúdentaráði 2011-2012 sem misnotuðu úttektarkort á kostnað Stúdentaráðs. Fjárdrátturinn nam rúmri hálfri milljón króna. Undirritaður ímyndar sér að þetta sé hlutfallslega sambærilegt því ef þingmaður fengi aðgang að debetkortareikningi Ríkissjóðs og keypti sér bíl og húsnæði á kostnað sjóðsins, væri slíkur reikningur til.

Gerð er grein fyrir því að ráðsmeðlimir minnihluta Stúdentaráðs bentu á þennan óútskýrða útgjaldalið í ársreikningi Stúdentaráðs. Ef þessir meðlimir væru ekki glöggir, hefði þá ekkert verið gert? Burtséð frá því, þá hefur skuldin verið greidd og stjórn Stúdentaráðs segir málinu lokið. En er virkilega réttlætanlegt að engin eftirmál verði? Má þagga niður í þessum stormi?

Margir kalla Stúdentaráð HÍ stökkpallinn til setu á Alþingi. Ég spyr: Viljum við kenna stjórnmálamönnum framtíðarinnar að skuli þeir draga fé, nýta sér umboð sitt og brjóta lög, þá þurfi þeir ekki nema að endurgreiða skuldina í því tilfelli að það komist upp um slík brot? Er þetta lexía sem við viljum kenna börnunum okkar?

Engar fundagerðir gefnar út

Undirritaður tekur undir orð oddvita Röskvu og kallar eftir frekari gegnsæi, bæði í fjármálum og fundargerðum Stúdentaráðs, en sitjandi Stúdentaráð hefur hingað til hunsað eigin lög og ekki gefið út fundargerðir funda sinna fyrir líðandi kjörtímabil, þrátt fyrir annars góða frammistöðu.

Maður hefði haldið að Stúdentaráð, hagsmunasamtök sem tala fyrir hönd 15 þúsund háskólanemenda, væru siðmikil saklaus samtök sem berjast fyrir hagsmunum námsmanna og krefjast nýs heftara í VR-II, sem er löngu orðið tímabært. En ljóst er að spillingin er alls staðar.




Skoðun

Sjá meira


×