Fótbolti

Eiður Smári fékk ekki að koma inná í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Eiður Smári Guðjohnsen.
Eiður Smári Guðjohnsen. Mynd/NordicPhotos/Getty
Eiður Smári Guðjohnsen sat allan tímann á bekknum þegar Club Brugge vann 2-1 útisigur á Mechelen í belgísku úrvalsdeildinni í fótbolta í kvöld.

Timmy Simons skoraði sigurmark Club Brugge úr vítaspyrnu á 86. mínútu en níu mínútum fyrr hafði liðið misst Laurens De Bock af velli með sitt annað gula spjald.

Tom De Sutter kom Club Brugge í 0-1 á 38. mínútu en Seth De Witte jafnaði úr vítaspyrnu á 71. mínútu.

Club Brugge hefur náð í tíu stig í fyrstu fjórum leikjum sínum og er í efsta sæti deildarinnar en Standard Liege hefur unnið alla þrjá leiki sína og á leik inni.

Þetta var fyrsti leikurinn í deildinni í vetur þar sem Eiður Smári kemur ekki við sögu hjá Club Brugge en hann var í byrjunarliðinu í tveimur fyrstu umferðunum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×