Sport

Jakob Helgi í 19. sæti í risasviginu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Helga María Vilhjálmsdóttir og Jakob Helgi Bjarnason.
Helga María Vilhjálmsdóttir og Jakob Helgi Bjarnason.
Ísland á þrjá keppendur á fyrstu Vetrarólympíuleikum ungmenna sem fara fram þessa dagana í Innsbruck í Austurríki en fyrsti keppnisdagur var í gær og var þá keppt í risasvigi.

Ísland átti tvo keppendur í risasviginu, Helgu Maríu Vilhjálmsdóttur og Jakob Helgi Bjarnason. Auk þeirra keppir skíðagöngumaðurinn Gunnar Birgisson á leikunum. Jakob Helgi var fánaberi á opnunarhátíðinni.

Helga María Vilhjálmsdóttir var með rásnúmer 20 í keppni stúlkna í risasvigi. 32 keppendur luku keppni en Helga María var ein af tíu sem lentu í vandræðum á erfiðum stað í brautinni, missti þar af hliði og var úr leik.

Jakob Helgi Bjarnason var með rásnúmer 23 í risasvigi pilta. Líkt og hjá stúlkunum fyrr um morguninn áttu keppendur í erfiðleikum á ákveðnum stað í brautinni og margir af sterkustu keppendunum gerðu mistök á sama stað. Alls voru 55 keppendur skráðir til leiks frá 47 löndum. Jakob Helgi stóð sig vel og kom niður á tímanum 1:07.07 mínútum og þar með í 19 sæti af þeim 41 keppendum sem luku keppni.

Í dag verður keppt í alpatvíkeppni. Helga María og Jakob Helgi munu bæði taka þar þátt og keppa í risasvigi og svigi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×