Innlent

Fjórðungur dauðra fálka finnst skotinn

Fálkar eru ekki algeng sjón í byggð. Þessi hér að ofan gæddi sér á dúfu undir vegg Héraðsdóms Reykjavíkur í Austurstræti í desemberbyrjun 2006.Fréttablaðið/Vilhelm
Fálkar eru ekki algeng sjón í byggð. Þessi hér að ofan gæddi sér á dúfu undir vegg Héraðsdóms Reykjavíkur í Austurstræti í desemberbyrjun 2006.Fréttablaðið/Vilhelm
Sjö högl fundust í hræi fálka sem nýverið fannst á Mýrum í Hornafirði. Í ályktunum aðalfundar Náttúrverndarsamtaka Austurlands (NAUST) frá því fyrr í mánuðinum er vakin á því athygli að í vöxt færist að alfriðaðir fuglar finnist skotnir.

Rannsóknir Náttúrufræðistofnunar Íslands á undanförnum árum sýna að fjórðungur um það bil hundrað fálka, sem fundist hafa dauðir, hafði verið skotinn. Varp-stofn fálkans er talinn vera um 300 til 400 pör. Hann hefur verið á válista og stranglega friðaður frá því árið 1940.

„Að skjóta friðaða fugla er ekki veiði heldur dráp sem kemur óorði á alla veiðimenn,“ segir í ályktuninni og bent er á að á sama tíma og áhugi á skotveiðum hafi aukist hafi dregið svo úr eftirliti að nær ekkert eftirlit sé með fuglaveiðum.

„NAUST leggur til að koma upp kerfi eftirlitsmanna með fuglaveiði sem hafi heimild til að skoða afla og gera upptæk skotvopn finnist friðaðar tegundir í afla. Þá leggur NAUST áherslu á að þeir sem stoppa upp fugla stoppi ekki upp friðaða fugla heldur tilkynni til lögreglu þau hræ sem þeim berast.“

Eins er vakin athygli á því að eitthvað sé um ólögleg vopn við fuglaveiðar, hlaðin miklu fleiri skotum en leyfilegt sé. „NAUST skorar á stjórnvöld að takmarka strax innflutning á vopnum sem ekki uppfylla löggjöf um veiðar enda ekki ástæða til að heimila innflutning á vopnum sem ekki má nota. Herða þarf eftirlit, viðurlög og sektir“, segir þar.

Elvar Árni Lund, formaður Skotveiðifélags Íslands (Skotvís), segir félagsmenn Skotvís vel meðvitaða um þessa umræðu, þótt ályktanir NAUST hafi ekki borist honum til eyrna. „Allt hefur þetta verið í umræðunni,“ segir hann og kveður skoðun Skotvís að stóraukið eftirlit leysi engan vanda. „Það þarf að upplýsa veiðimenn betur og leggja meiri áherslu á fræðslu. Fyrir því hefur Skotvís staðið í mörg ár,“ segir hann og telur að í raun hafi Grettistaki verið lyft í siðbót á meðal skotveiðimanna. Hins vegar þurfi ekki marga til að koma óorði á allan fjöldann.

„Við erum á réttri leið. Þetta snýst um að vinna með veiðimönnum, upplýsa og fræða,“ segir Elvar Árni og kveður félagið í raun hafa sinnt í þeim efnum hlutverki sem stjórnvöld ættu að sjá um. Elvar Árni hvetur alla nýja veiðimenn til að ganga í Skotvís og undirgangast þar með siðareglur félagsins. „Með því má gera góða veiðimenn enn betri.“

olikr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×