Innlent

Von um úrræði

Fjöldi heimila með lánsveð hjá ættingjum og vinum, sem hefur fallið á milli skips og bryggju í skuldaúrræðum stjórnvalda, gætu átt von á nýjum úrræðum. Sérstök ráðherranefnd er að útfæra leiðir til að mæta þeim hópi yfirveðsettra heimila sem hefur ekki notið 110 prósenta leiðarinnar.

Enginn veit enn hversu mörg heimili hafa ekki notið 110 prósenta leiðarinnar - en eru í raun yfirveðsett - sökum þess að hluti af fasteignalánum þeirra er með veði í húsnæði ættingja eða vina.

Þegar Oddný Harðardóttir settist í stól fjármálaráðherra nefndi hún að kortleggja þyrfti stöðu fólks með lánsveð og nú hefur verið sett saman tímabundin nefnd fjögurra ráðherra - þeirra Oddnýjar, Ögmundar Jónassonar, Guðbjarts Hannessonar og Steingríms J. Sigfússonar til að útfæra tillögur um hvernig verði hægt að koma til móts við þennan hóp.

Talsmaður neytenda bauð þessum hópi nú fyrir jól, aðstoð við að fara í hópmálsókn - en hann sagði í samtali við fréttastofu síðdegis að eftir fund með fjármálaráðherra í dag færi undirbúningur hópmálsóknar í bið meðan leitað væri pólitískra lausna.

Nánar var fjallað um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2. Hægt er að sjá fréttina í meðfylgjandi myndskeiði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×