Innlent

Jóna Lovísa: Vegið að fitness-íþróttinni

Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og afrekskona í fitness.
Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og afrekskona í fitness.
„Mér finnst vegið að íþróttinni í þessari grein," segir Jóna Lovísa Jónsdóttir, prestur og afrekskona í vaxtarækt og fitness. Hún hefur meðal annars sigrað bikar- og Íslandsmót í vaxtarrækt og fitness kvenna auk þess sem hún hefur notið velgengni á erlendum mótum.

Hún segist ekki deila upplifun þeirra kvenna sem tóku þátt í könnun þeirra Sigurðar Kristjáns Nikulássonar og Sigurðar Heiðars Höskuldssonar, sem könnuðu líkamleg og andleg áhrif undirbúnings og þátttöku kvenna í Íslandsmótinu í Fitness árið 2011. Vísir greindi frá lokaverkefni þeirra í morgun þar sem kom meðal annars fram að stífar æfingar kvennanna hefðu margvísislega neikvæð áhrif á líkama þeirra og andlegt atgervi.

Þannig reynir undibúningur kvennanna mikið á líkama þeirra, meðal annars kom í ljós, þegar skoðuð var rannsókn á fyrrum kvenkyns þátttakendum í Fitness á Íslandi, að 90% þeirra urðu fyrir röskun á tíðarhring sínum í kringum keppni. Allar misstu þær úr blæðingum í 2 mánuði eða lengur. Í tveimur þessara tilvika fór sú tala upp í heila 9 mánuði.

Jóna Lovísa segist hafa orðið undrandi þegar hún las í greininni hversu fáar hitaeiningar konurnar neyta. „Ég varð hissa á því hvað þetta var lítið. Sjálf borða ég mikið, sex sinnum á dag og þar af tvær stórar máltíðir," segir Jóna Lovísa sem bætir reyndar við að hún telji ekki hitaeiningar sjálf.

Spurð hvort hún taki eftir óheilbrigði kvenna sem taki þátt í íþróttinni segist hún ekki sjá það svo glöggt, enda um einstaklingsíþrótt að ræða. „Ég held að vandamálið geti oft verið að þessar ungu stelpur séu ekki með nægilega góða leiðsögn," segir Jóna Lovísa sem bætir við að konur sem ætla að taka þátt í keppnum af þessum toga þurfi að vera með þjálfara sem getur leiðbeint þeim, bæði í hreyfingum og með mataræði.

Spurð um ofþjálfun þeirra sem taka þátt í greininni svarar hún því til að það gæti átt við um hvaða íþróttagrein sem er. Hún tekur frænku sína sem dæmi sem er á barnsaldri og æfir fimleika um tíu sinnum í viku.

„Ég á ekki séns í hana," segir Lovísa og bætir við: „Ég held að ef rannsakendur prófi að rannsaka aðra afreksmenn í hvaða íþrótt sem er, þá fái þeir keimlíka niðurstöður."

Jóna tekur sem dæmi rask á tíðarhring. Hún segir það ekki bara tengjast fitness íþróttinni, það eigi við um alla ofþjálfun fyrir hvaða íþrótt sem er.

Spurð um andlegt atgervi kvennanna eftir keppni þá segist hún hafa heyrt um slíkt hjá öðrum stúlkum.

„Ég kannast ekki við afleiðingarnar sem þarna er lýst persónulega, en ég hef heyrt dæmi um það að stelpur verði hræddar við það að fitna til dæmis. Þeim finnst þær flottar á keppnisdegi, sem er náttúrlega ekki eðllegt ástand, heldur keppnisástand," segir Jóna og bætir við að konurnar verða svo eðlilegri eftir keppni - „og fallegri. En sumar virðast þurfa hjálp við að takast á við það," segir Jóna.

Hún bendir á að hún hafi tekið þátt í fitness móti á dögunum - sem hún sigraði að vísu - en hún hafi þyngst um fjögur kíló þremur dögum síðar. Það er því ljóst að það verða miklar breytingar á líkama kvennanna örfáum dögum eftir keppnir.

Hún segist ekki endilega draga niðurstöður nemanna í efa, en hún segir að fólk verði að fara varlega í að tengja saman ofþjálfun og sérstakar keppnisgreinar.


Tengdar fréttir

Konur í fitness: Svefntruflanir og röskun á tíðarhring

"Það kom manni kannski mest á óvart þessi andlegi þáttur sem stelpurnar þurftu að takast á við eftir á,“ segir Sigurður Kristján Nikulásson sem ásamt skólafélaga sínum, Sigurði Heiðari Höskuldssyni, könnuðu líkamleg og andleg áhrif undirbúnings og þátttöku kvenna í Íslandsmótinu í Fitness árið 2011.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×