Íslenski boltinn

Umfjöllun, viðtöl og einkunnir: Grindavík - Fylkir 2-2

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Grindavík og Fylkir gerðu 2-2 jafntefli í síðasta leik sínum í Pepsí deildinni í sumar. Afmælisbarnið Hafþór Ægir Vilhjálmsson jafnaði metin fyrir Grindavík á 97. mínútu með marki beint úr aukaspyrnu.

Leikurinn bar sem merki að hann skipti engu fyrir liðin. Bæði lið virkuðu afslöppuð og þrátt fyrir mjög erfiðar aðstæður var leikurinn fínasta skemmtun með mörgum færum.

Fyrri hálfleikur var markalaus en bæði lið fengu góð færi til að skora og voru markverðir liðanna í fínu formi. Kristján Finnbogason var í marki Fylkis vegna meiðsla Bjarna Þórðar Halldórssonar og lék líklega sinn síðasta leik á ferlinum.

Það vantaði ekkert upp á fjörið í seinni hálfleik. Fjögur mörk voru skoruð og mýmörg önnur færi litu dagsins ljós. Fylkismenn fengu öllu fleiri færi og þá ekki síst eftir að Grindavík missti Óskar Pétursson meiddan af leikvelli þegar enn átti eftir að leika hátt í 20 mínútur með viðbótartíma.

Grindavík skoraði fyrst en það forskot lifði aðeins í sjö mínútur. Þegar 82. mínútur voru liðnar komst Fylkir yfir og sótti liðið ákaft í leit að þriðja markinu. Það kom ekki og Hafþór Ægir jafnaði metin beint úr aukaspyrnu.

Vindurinn hafði töluverð áhrif á skotið og það fipaði Kristján í marki Fylkis sem þurfti að horfa á eftir boltanum leka í netið.

Grindavík var fallið fyrir leikinn og lauk leik með 12 stig í 22 leikjum, lang neðst í deildinni. Fylkir hafnaði í sjöunda sæti með 31 stig og mega vel við una.

Kristján: Þetta var afmælisgjöfin hans Habbó„Það er alltaf gaman að spila en það er fúlt að Bjarni Þórður skuli ekki hafa verið klár og tekið 22 leiki eins og hann stefndi að. Alltaf gaman að spila þó aðstæður hafi verið mjög erfiðar hér í dag," sagði Kristján Finnbogason markvörður Fylkis í dag.

„Ég vonaðist eftir því að þurfa ekki að spila neitt í sumar en þetta var 2 og hálfur leikur sem ég þurfti að taka en Bjarni var í góðu standi fram eftir öllu sumri," sagði Kristján sem lauk ferlinum á heldur leiðinlegan hátt.

„Ég ætla ekki að svekkja mig á þessu marki. Þetta var of laust hjá Habbó, ég var mættur of snemma og vindurinn tók boltann of mikið. Svona er þetta. Þetta var afmælisgjöfin hans," sagði Kristján léttur að lokum.

Guðjón: Ætla að endurskipuleggja þetta„Það gladdi mig að sjá okkur skora úr síðustu spyrnu sumarsins en við fengum betri færi sem við áttum að nýta. Það var ekki sanngjarnt að lenda undir. Það var sérstaklega erfitt að horfa upp á fyrsta markið. Við töldum það vera leikbrot þegar markmaðurinn meiddist en það var ekki dæmt. Það var ágætt að sjá að það var vilji til að komast inn í leikinn aftur þó það hafi verið leiðinlegt fyrir Stjána að fá mark á sig með þessum hætti,“ sagði Guðjón Þórðarson þjálfari Grindavíkur.

„Við byrjum að æfa á ný í byrjun nóvember. Það eru ákveðnir óvissuþættir með leikmannaskipan. Það þarf að sjá til á hvaða hátt það endar.

„Ég er með samning til 2014 og hef fullan hug á að endurskipuleggja þetta og koma þessu í gang. Koma liðinu upp aftur og búa til breiðari kjarna sem er skipaður meira af Íslendingum. Undanfarin ár hefur verið allt of mikið gegnumstreymi af leikmönnum og það þarft að stoppa það. Við eigum ákveðinn kjarna hér heima nú þegar sem hægt er að byggja á og reyna að draga til okkar íslenska leikmenn sem eru með lengri plön heldur en skammtímalausnirnar sem útlendingarnir hafa boðið upp á,“ sagði Guðjón að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×