Fótbolti

Joachim Löw: Klassaframmistaða hjá liðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, brosti í leikslok.
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, brosti í leikslok. Mynd/Nordic Photos/Getty
Joachim Löw, þjálfari þýska landsliðsins, var ánægður eftir sannfærandi 4-2 sigur á Grikkjum í átta liða úrslitum Evrópumótsins í fótbolta í kvöld. Þjóðverjar mæta annaðhvort Ítalíu eða Englandi í undanúrslitunum í næstu viku.

„Þetta var klassaframmistaða hjá liðinu og það er frábært að komast í undanúrslit á fjórða stórmótinu í röð," sagði Joachim Löw.

„Við getum verið mjög stolt af liðinu okkar en það var alltaf ljóst að Grikkir gátu gert eitthvað út litlu sem engu. Við náðum ekki að skora snemma en það var aldrei nein örvænting í liðinu," sagði Löw.

Löw ákvað að hvíla stórstjörnurnar Lukas Podolski, Thomas Müller og Mario Gomez í leiknum en sá síðastnefndi er markahæsti leikmaður keppninnar með þrjú mörk. Miroslav Klose, Andre Schurrle og Marco Reus byrjuðu því í fremstu víglínu Þjóðverja en Müller og Gomez komu inn af bekknum í seinni hálfleiknum.

„Ég gerði nokkrar breytingar því mér fannst ég þurfa að breyta hlutunum eftir sigrana þrjá í riðlakeppninni," sagði Löw. Miroslav Klose skoraði líkt og Marco Reus sem átti stórleik.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×