Innlent

„Þetta er skítaflétta“

Lárus Welding, Guðmundur Hjaltason, Vafningsmálið, sérstakur saksóknari, héraðsdómur reykjavíkur
Lárus Welding, Guðmundur Hjaltason, Vafningsmálið, sérstakur saksóknari, héraðsdómur reykjavíkur
Fyrirsögnin hér að ofan er sótt í símtal tveggja þáverandi starfsmanna Glitnis, Alexanders K. Guðmundssonar og Friðfinns Ragnars Sigurðssonar, í hádeginu 8. febrúar 2008.

Þeir voru að ræða fyrirhugað tíu milljarða lán bankans til félags á vegum Milestone, Vafnings að nafni, sem nú hefur getið af sér sakamál á hendur Lárusi Welding, þáverandi forstjóra bankans, og Guðmundi Hjaltasyni, þáverandi framkvæmdastjóra fyrirtækjasviðs bankans.

„Þetta er skítaflétta,“ segir Friðfinnur við Alexander eftir nokkrar vangaveltur í símtalinu sem leikið var í dómsal í gær. Alexander jánkar og endurtekur setninguna.

Hvorugur þeirra gat hins vegar eða vildi útskýra almennilega hvað þeir áttu við með þessum orðum sínum.

Nauðsynlegt að bjarga Milestone

Aðalmeðferð í Vafningsmálinu svokallaða hófst í gær og stóð frá morgni til kvölds. Tekin var skýrsla af sakborningunum tveimur og tíu vitnum, sem öll eiga það sameiginlegt að hafa starfað í Glitni á þessum tíma og komið með einum eða öðrum hætti að lánveitingunni þetta föstudagssíðdegi.

Allir sem þekktu á annað borð til voru sammála um að tilgangur lánsins hefði verið að bjarga eignarhaldsfélaginu Þætti International undan gjaldfellingu láns hjá bankanum Morgan Stanley. Milestone var í ábyrgð fyrir lánið og mögulegt gjaldþrot þess í kjölfarið hefði haft slæm áhrif á Glitni, enda var Milestone stór hluthafi í bankanum – og ekki síður stór skuldunautur.

Lánið fluttist á milli félaga

Tíu milljarða lánið fór hins vegar ekki til Vafnings þennan föstudag, heldur til Milestone. Og það er það sem Lárus og Guðmundur eru ákærðir fyrir: að hafa lánað Milestone pening gegn ótryggum veðum, þegar lánið hefði farið með áhættuskuldbindingu Glitnis gagnvart Milestone-samsteypunni yfir lögbundið hámark.

Verjendur þeirra héldu því raunar fram fyrir dómi í gær að þeir hefðu reiknað sig að þeirri niðurstöðu að tíu milljarða lán hefði ekki verið of hátt lán til Milestone á þessum tíma, en aðalvörnin er þó sú að þeir hafi ekkert haft með það að gera að lánið hafi runnið þangað.

Ráðgátan um handskriftina

Mesta ráðgátan í málinu öllu er nefnilega sú hver tók þá ákvörðun, síðdegis föstudaginn 8. janúar 2008, að lána Milestone þessa peninga í stað félagsins Vafnings – sem stóð að forminu til utan Milestone-samsteypunnar.

Enginn sem kom fyrir dóminn í gær vildi gangast við ábyrgð á þessu. Á fundum dagana áður hafði verið teiknaður upp lánssamningur við Vafning en einhvers staðar í ferlinu á föstudeginum dúkkuðu hins vegar upp handskrifaðar breytingar á svokallað ádráttarskjal, sem heimilaði útgreiðslu peninganna úr bankanum. Allt í einu var lántakandinn orðinn Milestone.

Halldór Halldórsson, viðskiptastjóri á fyrirtækjasviði bankans, kannaðist við að hafa gert einhverjar þessara breytinga. Hann sagðist hins vegar ekki – frekar en flestir aðrir – muna málavexti nákvæmlega nú tæpum fimm árum síðar og vissi því ekki nákvæmlega hver hefði tekið ákvörðunina um að breyta lántakandanum. Líklega hefðu það þó verið Lárus og Guðmundur.

Fengu tíðindin í yfirheyrslum

Lárus og Guðmundur sögðust hins vegar, eins og nánast allir aðrir, koma af fjöllum hvað þessa breytingu varðaði. Þeir hefðu ekki einu sinni vitað að lánið hefði farið til Milestone fyrr en við yfirheyrslur hjá sérstökum saksóknara tveimur árum síðar, enda hefði lánið svo flust til Vafnings strax á mánudeginum eftir.

„Það er enginn að reyna að fela neitt og það er fáránlegt að láta það líta þannig út,“ sagði Lárus.

Verjendur þeirra gerðu því ítrekað skóna að téður Halldór bæri ábyrgð á breytingunni, og bentu sömuleiðis reglulega á að viðskiptin hefðu verið ómöguleg án samþykkis og vitundar fjármálastjórans Alexanders Guðmundssonar.

Aðalmeðferðinni verður fram haldið í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×