Innlent

Munum rísa gegn dauðadómi samkynhneigðra

Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson
Össur Skarphéðinsson utanríkisráðherra segir að Ísland muni gera allt sem í sínu valdi stendur til að berjast gegn frumvarpi sem gerir samkynhneigð að dauðasök í Úganda.

Rebecca Kadaga, forseti úgandska þingsins sagði á fjölmennum fundi í höfuðborginni Kampala, að frumvarpið verði samþykkt fyrir árslok. Hún segist þess fullviss að flestir Úgandabúar séu samþykkir því. Hundruð stuðningsmanna frumvarpsins komu saman á fundinum, meðal annars kristnir trúboðar sem báðu Kadaga um að færa Úgandabúum lögin í jólagjöf.

Frumvarpið kom fyrst fram árið 2009 en því hefur verið frestað vegna alþjóðlegs þrýstings, en það hefur verið fordæmt víða um heim.

Meðal þeirra sem hafa fordæmt ofsóknir gegn samkynhneigðum og þetta frumvarp eru íslensk stjórnvöld, en yfir milljarður króna hefur farið í þróunaraðstoð til Úganda undanfarin ár. Þróunarsamvinnustofnun Íslands er einnig með starfsstöð í Úganda og starfrækir sendiráð í Kampala.

„Ísland mun gera allt sem í sínu valdi stendur til að berjast gegn frumvarpinu. Á sínum tíma mótmæltum við þessu harðlega og vorum í hópi erlendra ríkja sem fór á fund forseta Úganda til að koma á framfæri hörðum mótmælum. Hann tók því vel og sagði þá að slík lög yrðu ekki staðfest,“ segir Össur.

Í millitíðinni hafa farið fram kosningar. „Það er áhyggjuefni og sorglegt að frumvarp sem er mengað af svona fordómum komi fram.Við munum bregðast illa við þessu og sömuleiðis þær þjóðir sem við höfum ráðfærst við, ekki síst Norðurlanda- og Vestur-Evrópuþjóðir.“

- þeb




Fleiri fréttir

Sjá meira


×