Innlent

Frændur sjá um loftvarnir

Fundurinn í gær Ráðherrarnir sitja fyrir svörum. Frá vinstri eru þarna Helle Thorning Schmidt, Jyrki Katainen, Espen Barth Eide, Fredrik Reinfeldt og Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Norden.org
Fundurinn í gær Ráðherrarnir sitja fyrir svörum. Frá vinstri eru þarna Helle Thorning Schmidt, Jyrki Katainen, Espen Barth Eide, Fredrik Reinfeldt og Jóhanna Sigurðardóttir. Mynd/Norden.org
Fréttaskýring

Hver annast loftvarnir Íslands?

Svíar og Finnar munu frá og með apríl 2014 sinna sérstakri norrænni loftrýmisgæslu yfir Íslandi. Þetta var ákveðið á fundi forsætisráðherra Norðurlandanna á þingi Norðurlandaráðs í Helsinki í gær.

„Þetta er mjög spennandi verkefni sem við bindum miklar vonir við,“ sagði Espen Barth Eide, utanríkisráðherra Noregs, sem sat fundinn í fjarveru Jens Stoltenberg. Barth Eide sagði að það sem væri nýtt í þessu samhengi væri að Norðurlöndin kæmu sameiginlega að lausn á vanda við varnir Íslands.

„Finnland hefur upplýst íslensk stjórnvöld um að við séum tilbúin. Þetta krefst samþykkis NATO og samþykkis finnska þingsins þegar við höfum nánari upplýsingar um hvað felst í loftrýmisgæslunni. Það eru ýmis álitaefni sem koma upp,“ sagði Jyrki Katainen, forsætisráðherra Finnlands. Katainen og Fredrik Reinfeldt, forsætisráðherra Svía, voru ekki á einu máli um hvort herþoturnar yrðu vopnaðar eða án vopna.

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra var ánægð með niðurstöðuna. „Það þarf auðvitað samráð við NATO en ég á ekki von á andstöðu við áformin þar.“ Hún sagði aðspurð að eining væri í ríkisstjórninni um málið. Engar athugasemdir hafi verið gerðar þegar áformin voru rædd í ríkisstjórn fyrr á þessu ári. Árni Þór Sigurðsson, formaður utanríkismálanefndar, gagnrýndi hins vegar loftrýmisæfingarnar í fréttum RÚV í gær og kallaði þær tímaskekkju frá dögum kalda stríðsins.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×