Íslenski boltinn

Glapræði að verja jafntefli

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Grannliðin Stjarnan og Breiðablik eigast við í hreinum úrslitaleik um þriðja sæti Pepsi-deildar karla í dag. Evrópusæti er að veði.fréttablaðið/daníel
Grannliðin Stjarnan og Breiðablik eigast við í hreinum úrslitaleik um þriðja sæti Pepsi-deildar karla í dag. Evrópusæti er að veði.fréttablaðið/daníel
Lokaumferð Pepsi-deildar karla fer fram í dag en allir sex leikirnir hefjast klukkan 14.00. Titilbarátta deildarinnar er búin og þar sem mesta spennan er farin úr botnbaráttunni má búast við því að augu flestra beinist að Kópavogsvellinum í dag.

Þar eigast við Breiðablik og Stjarnan í hreinum úrslitaleik um þriðja sæti deildarinnar og þar með þátttökurétt í forkeppni Evrópudeildar UEFA að ári.

Stjarnan stendur betur að vígi og dugir jafntefli í dag til að halda þriðja sætinu. Blikar eru þó á heimavelli og hafa unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum.

„Maður er í þessu fyrir stóru leikina og þetta er stór leikur fyrir liðið okkar og tímabilið allt," sagði Finnur Orri Margeirsson, fyrirliði Breiðabliks, við Fréttablaðið í gær. „Ég hefði þegið þriðja sætið fyrir tímabilið enda var það alltaf markmið okkar að tryggja okkur þetta Evrópusæti."

Stjörnumaðurinn Halldór Orri Björnsson tekur í svipaðan streng. „Það er erfitt að bíða eftir svona leik. Við höfum stefnt að þessu í allt sumar og nú erum við í góðum séns. Nú verðum við bara að sýna hvort við séum karlmenn eða ekki."

Lærðum mikið af síðasta sumriBlikar voru lengi í gang í vor en hafa verið að vinna sig upp töfluna jafnt og þétt í síðari umferðinni.

„Deildin hefur verið nokkuð skrítin í sumar enda stutt í bæði topp- og botnbaráttuna. Við höfum þó verið á ágætu skriði og megum vera ánægðir með að hafa komið okkur í þessa stöðu," segir Finnur Orri og bætir við að tímabilið í ár hafi verið jákvætt.

„Við lærðum mikið af síðasta sumri og tímabilið í ár hefur verið allt öðruvísi og mun skemmtilegra."

Stjörnumenn hafa aðeins tapað þremur leikjum í allt sumar – jafn mörgum og Íslandsmeistarar FH. Vandinn er hins vegar sá að Garðbæingar hafa gert tíu jafntefli í leikjunum sínum 21 til þessa.

„Þetta er auðvitað ótrúlegur árangur en ef við klárum þennan leik [í dag] þá verðum við ekkert að velta þessu fyrir okkur frekar," segir Halldór Orri og bætir við að hans menn séu ekki að stefna á ellefta jafnteflið í sumar – þó svo að það myndi duga til að tryggja Evrópusætið.

„Ég stefni á sigur á þessum leik enda vitum við allir, leikmenn og þjálfarar, að ef við förum að reyna að verja jafntefli í 90 mínútur endar það bara illa," segir Daníel.

Slæmar minningar frá KópavogiKarlalið Stjörnunnar hefur aldrei komist í Evrópukeppni en liðið komst nálægt því í fyrra. Þá tapaði liðið fyrir Breiðabliki í lokaumferðinni – á sama velli og liðin mætast í dag. Þeim leik lauk með 4-3 sigri Blika þar sem Guðmundur Pétursson tryggði sigurinn með marki á lokamínútum leiksins.

„Það sveið mikið að hafa tapað þeim leik og við viljum ekki upplifa þá tilfinningu aftur. Fæstir okkar hafa prófað að spila í Evrópukeppni og við erum fyrst og fremst að hugsa um að komast þangað."

Þess má geta að þetta er þriðja árið í röð sem þessi lið mætast í lokaumferðinni. Árið 2010 varð Breiðablik Íslandsmeistari eftir að liðin gerðu jafntefli á Stjörnuvelli í Garðabæ.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×