Íslenski boltinn

Kristinn Ingi þarf bara að jafna Atla til að taka gullskóinn

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason 12 mörk í 21 leik. Mark á 155 mínútna fresti. fréttablaðið/anton
Atli Guðnason 12 mörk í 21 leik. Mark á 155 mínútna fresti. fréttablaðið/anton
Það verður barist um gull, silfur- og bronsskóinn í lokaumferð Pepsi-deildar karla í dag og því ekki úr vegi að skoða möguleika þeirra leikmanna sem skorað hafa mest í deildinni í sumar.

FH-ingurinn Atli Guðnason er og hefur verið markahæstur í nær allt sumar en hann er með 12 mörk fyrir Íslandsmeistarana. Atli hefur eins marks forskot á Framarann Kristin Inga Halldórsson en þar sem Atli hefur spilað nær allar mínúturnar í leikjum FH í sumar þá mun hann alltaf verða undir takist Kristni eða einhverjum öðrum að jafna hann.

Kristni Inga nægir því bara að jafna Atla til að taka af honum gullskóinn því hann hefur leikið þremur leikjum færra. Atli ætti að vera öruggur með gull- eða silfurskóinn enda með þremur mörkum meira en þeir sem koma á eftir þeim Atla og Kristni Inga.

Kristinn Ingi hefur verið að vinna upp forskot Atla í undanförnum átta leikjum enda með 7 af 11 mörkum sínum frá því í byrjun ágúst. Atli hefur skorað þrjú mörk í síðustu átta leikjum FH-liðsins.

Næstu menn eru með níu mörk og það eru Fylkismaðurinn Ingimundur Níels Óskarsson, FH-ingurinn Björn Daníel Sverrisson, og Eyjamaðurinn Christian Steen Olsen. Olsen hefur leikið leik meira og verður alltaf neðstur af þessum þremur en Ingimundur Níels verður alltaf efstur þar sem hann hefur leikið færri mínútur en Björn Daníel.

Það þarf mun meira að gerast til að þeir þrír sem hafa skorað átta mörk nái að krækja sér í skó. Garðar Jóhannsson í Stjörnunni og Garðar Gunnlaugsson í ÍA búa hins vegar báðir að því að hafa leikið færri leiki og verða því alltaf ofar en níu marka mennirnir takist þeim að jafna þá.

Garðar Jóhannsson hefur skorað sín átta mörk í 18 leikjum en átta mörk Garðars Gunnlaugssonar hafa komið í 19 leikjum. KR-ingurinn Kjartan Henry Finnbogason hefur einnig skorað átta mörk en hann er meiddur og fær ekki tækifæri til að bæta við mörkum í dag. Hér fyrir ofan má sjá markahæstu leikmenn deildarinnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×