Íslenski boltinn

Fagna Framararnir enn á ný eftir lokaumferðina?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fögnuðu í fyrra Framarar héldu sér uppi í lokaumferðinni í fyrra og héldu upp á Pepsi-deildar sætið með því að borða saman köku í klefanum. Fréttablaðið/daníel
Fögnuðu í fyrra Framarar héldu sér uppi í lokaumferðinni í fyrra og héldu upp á Pepsi-deildar sætið með því að borða saman köku í klefanum. Fréttablaðið/daníel
Fram og Selfoss berjast fyrir lífi sínu í lokaumferð Pepsi-deildarinnar í dag en það er þó óhætt að segja að liðin séu í ólíkri aðstöðu. Það er ekki nóg með að Framarar standi miklu betur að vígi í stigatöflunni heldur eru þeir ókrýndir Íslandsmeistarar í fallbaráttu enda búnir að fagna oftar í lokaumferðinni en flest önnur félög undanfarin ár.

Framarar björguðu sér í lokaumferðinni í fyrra og það var í áttunda sinn frá árinu 1999 sem Safamýrarliðið bjargaði sér frá falli í síðasta leik. Selfyssingar hafa aðeins einu sinni verið í efstu deild áður og þeir voru fallnir fyrir lokaumferðina sumarið 2010 .

Selfyssingar þurfa á sannkölluðu kraftaverki að halda í dag ætli þeir að spila áfram í Pepsi-deildinni næsta sumar. Þeir verða að vinna sinn leik, á heimavelli á móti ÍA, á sama tíma og Framarar þurfa að tapa á móti ÍBV á Laugardalsvellinum.

Það er ekki einu sinni nóg því Selfossliðið þarf einnig að vinna upp sex marka forskot Framara í markatölu. Staða Framara er því góð og svo gæti farið að þeir geti fagnað eftir tapleik alveg eins og þeir gerðu eftir lokaumferðina árið 2004. Þá töpuðu þeir stórt á móti Keflavík en úrslit annarra leikja sáu til þess að þeir voru áfram í efstu deild.

Innbyrðisviðureignir gilda ekki í fótboltanum eins og í vetrarboltagreinunum sem er gott fyrir Framara enda unnu Selfyssingar báða innbyrðisleiki liðanna í sumar, fyrst 2-0 á Laugardalsvellinum í maí og svo 4-2 á Selfossi í ágúst.

Framarar eru því í lykilstöðu til að bæta við magnaða tölfræði sína en frá því að þriggja stiga reglan var tekin upp 1984 hefur Framliðið bjargað sér í níu af þeim tíu skiptum sem liðið hefur verið í fallhættu í lokaumferðinni.

Þeir státa af níutíu prósent árangri í fallbaráttuslag á lokadegi mótsins og það bendir allt til þess að sú tala hækki enn eftir leikina í dag. Allir sex leikir lokaumferðarinnar hefjast klukkan 14.00 í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×