Íslenski boltinn

Ögmundur: Það getur ýmislegt gerst í lokaumferðinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ögmundur hefur staðið sig vel í markinu hjá Fram.fréttablaðið/stefán
Ögmundur hefur staðið sig vel í markinu hjá Fram.fréttablaðið/stefán
Ögmundur Kristinsson, markvörður Fram, átti stórleik þegar Safamýrarpiltar unnu afar mikilvægan sigur á ÍA, 1-0, í næstsíðustu umferð Pepsi-deildar karla um helgina. Með sigrinum komust Framarar þremur stigum frá fallsæti.

„Það var afar mikilvægt að fá þrjú stig úr þessum leik og í raun ekkert annað sem kom til greina," sagði Ögmundur við Fréttablaðið í gær.

„Við mættum mjög ákveðnir til leiks en svo tók þetta hávaðarok á móti okkur og maður var því ekki alveg viss um hvað við værum að fara í."

Skagamenn komust nálægt því að jafna á lokamínútunum en Ögmundur var vel á verði og sá til þess að Framarar misstu leikinn ekki í jafntefli, eins og þeir gerðu gegn Stjörnunni aðeins nokkrum dögum áður. „Það var ekki í fyrsta sinn sem það gerðist í sumar og því kannski skiljanlegt að liðið bakkaði ef til vill fullmikið til baka síðustu tíu mínúturnar," sagði Ögmundur.

„En það er stundum sagt að 1-0 sigrar séu þeir sætustu og ég held að það hafi sannast í gær."

Selfoss á enn möguleika á að bjarga sér frá falli og senda Fram í 1. deildina. Selfoss þarf þá að vinna ÍA og treysta á að ÍBV hafi betur gegn Fram í Laugardalnum. Fram er þó með betra markahlutfall og þarf sex marka sveiflu til að breyta því.

„Við erum algjörlega meðvitaðir um að þetta er ekki komið hjá okkur. Við vorum ánægðir um helgina en við ætlum að vinna ÍBV. Þetta lítur vissulega vel út á pappírnum fyrir okkur en maður hefur séð ýmislegt gerast í lokaumferð deilda bæði hérlendis og ytra," bætti markvörðurinn við.

Lið 21. umferðar

Ögmundur Kristinsson, Fram

Atli Sveinn Þórarinsson, Val

Kristján Hauksson, Fram

David Elebert, Fylki

Rúnar Már Sigurjónsson, Val

Atli Jóhannsson, Stjörnunni

Emil Ásmundsson, Fylki

Kristinn Jónsson, Breiðabliki

Þórarinn Ingi Valdimarsson, ÍBV

Ingimundur Níels Óskarsson, Fylki

Garðar Jóhannsson, Stjörnunni






Fleiri fréttir

Sjá meira


×