Innlent

Förum ekki í manngreinarálit

Baldur er lögfræðingur og sinnir lögmannsstörfum á Lex.
Baldur er lögfræðingur og sinnir lögmannsstörfum á Lex.
Páll Winkel fangelsismálastjóri segir alfarið unnið eftir lögum og reglugerðum þegar teknar eru ákvarðanir um það hvort fangar megi ljúka afplánun utan fangelsis, ýmist á áfangaheimilinu Vernd eða undir rafrænu eftirliti. Þar sé aldrei farið í manngreinarálit.

Páll vill ekki tjá sig sérstaklega um mál Baldurs Guðlaugssonar, fyrrverandi ráðuneytisstjóra, sem nú afplánar tveggja ára fangelsisdóm sinn á Vernd og sinnir samhliða því störfum á lögmannsstofunni Lex. Baldur sat inni á Kvíabryggju í hálft ár.

Hann segir hins vegar að almennt sé það svo að lögum samkvæmt hafi fangar tækifæri til að afplána dóma sína utan fangelsis eftir að þeir hafi setið inni þriðjung afplánunartímans – sem er sá tími sem gera má ráð fyrir að fanginn afpláni yfir höfuð. Það er gjarnan ekki nema helmingur dómsins því að eftir helming á fanginn í flestum tilvikum kost á reynslulausn. Hún er veitt í um sextíu prósentum tilfella.

Enginn fær að afplána á Vernd nema hann sé annað hvort í fullu námi eða vinnu. Starfsfólk Fangelsismálastofnunar tekur svo út vinnustaðina og hefur eftirlit með því að fangarnir mæti til vinnu.

Að lokum gefst föngum færi á að afplána undir rafrænu eftirliti með hjálp ökklabands, í tvo og hálfan dag fyrir hvern mánuð dómsins. Í tilviki Baldurs eru það tveir mánuðir. Því næst tekur við tveggja ára reynslulausn.

Páll segir að öllum þessum úrræðum sé ætlað að búa fangana betur undir það að snúa út í lífið. „Að baki þessu liggur sú hugsun að með þessu sé verið að betra fangann," segir Páll.- sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×