Innlent

Skógur í Fnjóskadal jafnaðist við jörðu

Hundruð ef ekki þúsundir fjár hafa drepist á Norðausturlandi á síðustu dögum og eru bændur enn að finna dautt fé á fjöllum.
Hundruð ef ekki þúsundir fjár hafa drepist á Norðausturlandi á síðustu dögum og eru bændur enn að finna dautt fé á fjöllum. Mynd/Bryngeir Jónsson
Skóglendi innst í Fnjóskadal fór afar illa í veðurhörkunum fyrr í mánuðinum. Hundrað ára gömul tré gáfu sig undan snjónum. Enn finnst dautt fé á Norðausturlandi. Skógræktarbændur í Þingeyjarsýslum segja trén hafa farið illa.

„Ég ólst upp hér í dalnum og ég man ekki eftir svona tjóni. Á ákveðnum kafla hafa um tuttugu prósent af trjánum farið. Þetta lítur illa út,“ segir Guðni Þorsteinn Arnþórsson, starfandi skógarvörður í Vaglaskógi í Fnjóskadal.

Skóglendið innst í dalnum, Lundskógur og Þórðarstaðaskógur, fór afar illa í veðurhamnum fyrr í mánuðinum. Sums staðar er að finna hundrað ára gömul tré sem brotnuðu í óveðrinu.

Vaglaskógur fór ekki eins illa í óveðrinu og skógarnir innst í dalnum, en þó er þar einnig að finna brotin tré. Guðni segir að þegar trén eru ekki búin að fella laufin setjist mikill þungi á þau þegar úrkoman er eins mikil og hún varð fyrir rúmri viku.

„Blautur krapsnjór hlóðst á trén með miklu hvassviðri í kjölfarið með þessum afleiðingum,“ segir hann. „Þegar trén eru enn með lauf og nálar standa þau ekki undir þessum þunga, full af snjó. Þau bara gefa sig.“

Margir skógarvegir og stígar í Þórðarstaðaskógi og Lundskógi eru ófærir eftir óveðrið, en Guðni segir það standa til að reyna að hreinsa sem mest út úr skógunum af þeim trjám sem féllu.

Valgerður Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Norðurlandsskóga, segir formlega úttekt á gróðurtjóninu ekki hafa verið gerða. Hún hafi þó rætt við skógræktarbændur á svæðunum sem verst urðu úti sem tjáðu henni að veðrið hefði leikið trén illa. Stafafuran hefði farið hvað verst, en birkið og víðirinn ættu það til að rétta sig við ef þau hefðu ekki brotnað.

Þá höfðu stór og gömul garðtré, eins og reyniviður og birki, í Mývatnssveit og Aðaldal mörg hver brotnað eða fallið í snjóþyngslunum fyrr í mánuðinum, að sögn íbúa þar.

sunna@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×