Íslenski boltinn

Getum verið mjög ánægðir með tímabilið

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
sigurbergur Skoraði tvö í leik með Keflavík gegn Fram á sunnudaginn.
fréttablaðið/vilhelm
sigurbergur Skoraði tvö í leik með Keflavík gegn Fram á sunnudaginn. fréttablaðið/vilhelm
Keflavík nánast gulltryggði sæti sitt í Pepsi-deild karla með 5-0 sigri á Fram á sunnudagskvöldið. Sigurbergur Elísson skoraði tvö marka Keflavíkur en þessi tvítugi miðjumaður er leikmaður umferðarinnar hjá Fréttablaðinu.

„Það var frábært að vinna, enda mikilvægur leikur fyrir okkur," sagði Sigurbergur. Þetta var þriðji sigur Keflavíkur á heimavelli í sumar en á ýmsu hefur gengið hjá Keflvíkingum. Þeir hafa unnið stóra sigra en liðið tapaði til að mynda síðustu tveimur deildarleikjum á undan með samtals sjö mörkum gegn engu.

„Þetta hefur verið smá rússíbanaferð hjá okkur en heilt yfir hefur sumarið verið afar skemmtilegt. Það er góð blanda ungra og reyndra leikmanna í liðinu og þá var gaman að fá nýja þjálfara inn," sagði Sigurbergur en þeir Zoran Ljubicic og Gunnar Oddsson tóku við liðinu fyrir tímabilið. „Soggi [Zoran] hefur þjálfað okkur ungu strákana undanfarin 6-7 ár og gaman að fá hann," bætti hann við.

Sigurbergur er yngsti leikmaður efstu deildar karla í knattspyrnu frá upphafi en hann var aðeins fimmtán ára gamall þegar hann lék sinn fyrsta leik með Keflavík.

„Það minnast fáir á þetta met í dag enda hefur mikið gerst á þessum fimm árum sem eru liðin. Ég var frá í um þrjú ár vegna hnémeiðsla og er þetta mitt fyrsta tímabil þar sem ég er alveg laus við meiðslin," segir Sigurbergur sem er vitanlega sáttur við tímabilið hjá sér sem og liðinu.

„Það gerast alltaf mistök sem hægt er að læra af en við getum samt verið mjög sáttir við tímabilið. Markmiðið var að gera betur en í fyrra og hefur það tekist. Það eru enn stig eftir í pottinum til að gera enn betur og stefnum við á það."

Lið 19. umferðar Pepsi-deildar karla:

Markvörður:

Páll Gísli Jónsson, ÍA

Varnarmenn:

Arnór Eyvar Ólafsson, ÍBV

Freyr Bjarnason, FH

Haraldur Freyr Guðmundsson, Keflavík

Kristinn Jónsson, Breiðabliki

Miðjumenn:

Rúnar Már Sigurjónsson, Val

Kristinn Freyr Sigurðsson, Val

Sigurbergur Elísson, Keflavík

Tómas Óli Garðarsson, Breiðablik

Sóknarmenn:

Víðir Þorvarðarson, ÍBV

Atli Guðnason, FH




Fleiri fréttir

Sjá meira


×