Innlent

Hafði lengi rætt um dópframleiðslu

Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir helgi og situr þar enn.
Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald fyrir helgi og situr þar enn. Mynd/ stöð 2
Rannsókn á amfetamínverksmiðju sem uppgötvaðist í bílskúr í Efstasundi í Reykjavík á fimmtudagskvöld stendur enn yfir hjá lögreglu.

Í tilkynningu frá lögreglu í gær segir að flokkun, skráning og efnagreining þeirra efna sem fundust muni taka lengri tíma en áætlað var sökum umfangsins og þangað til sé engar upplýsingar að hafa um málið.

Heimildir Fréttablaðsins herma að efnin séu einkum vökvar og ætluð íblöndunarefni fyrir fullunnið amfetamín. Ólíkt því sem vísbendingar voru um í upphafi er nú ekki talið að stórtæk framleiðsla hafi þegar átt sér stað í bílskúrnum.

Karlmaður, 47 ára, er í haldi og mun hafa gengist við því að hluta að hafa ætlað að framleiða amfetamín. Hann mun enn fremur hafa viðrað þær fyrirætlanir sínar við kunningja um langt skeið.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins var aðstaðan ekkert í líkingu við það sem fannst í iðnaðarhverfi í Hafnarfirði haustið 2008 og leiddi til átta og tíu ára fangelsisdóma yfir Tindi Jónssyni og Jónasi Inga Ragnarssyni. - sh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×