Innlent

Myntsafn fékk safn Kristjáns Eldjárns að gjöf

Börn Kristjáns Eldjárns afhentu á föstudag minnis- og heiðurspeninga Kristjáns Eldjárns. Fréttablaðið/Vilhelm
Börn Kristjáns Eldjárns afhentu á föstudag minnis- og heiðurspeninga Kristjáns Eldjárns. Fréttablaðið/Vilhelm
Börn Kristjáns Eldjárns, fyrrverandi forseta Íslands og þjóðminjavarðar, afhentu Myntsafni Seðlabankans og Þjóðminjasafnsins minnis- og heiðurspeninga Kristjáns á föstudag. Hátíðleg athöfn var í anddyri Seðlabankans við tilefnið.

Á föstudag voru liðin 30 ár síðan Kristján lést. Hann var alla tíð mikill áhugamaður um söfn og söfnun. Samstarfi um Myntsafn Seðlabankans og Þjóðminjasafnsins var komið á þegar Kristján var þjóðminjavörður en hann ásamt Haraldi Hannessyni, safnstjóra Seðlabankans, var frumkvöðull að því. Safnið var formlega stofnað í janúar 1985, tæpum fjórum árum eftir dauða Kristjáns.

Munirnir sem afhentir voru á föstudag verða í eigu Þjóðminjasafns en eru varðveittir í Myntsafni Seðlabanka og Þjóðminjasafns. Þórarinn Eldjárn afhenti gjöfina.

Næstu vikur verður opin sýning með munum og minnispeningum Kristjáns í sýningarsal í anddyri Seðlabankans milli klukkan eitt og fjögur virka daga.- bþh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×