Innlent

Feikilegt magn af efnum í amfetamínverksmiðjunni

Lögreglan girti heimili mannsins af með borða og setti upp tjald til að geta athafnað sig við bílskúrinn.
Lögreglan girti heimili mannsins af með borða og setti upp tjald til að geta athafnað sig við bílskúrinn. Fréttablaðið/anton
Gríðarmikið magn af efnum og efnablöndum – einkum í vökvaformi – fannst í bílskúr við Efstasund í Langholtshverfi í Reykjavík í fyrradag, þegar lögregla réðst þar til inngöngu á sjötta tímanum.

Einn maður var handtekinn vegna málsins og veitti enga mótspyrnu. Sá er 46 ára kælitæknir sem bjó þar með konu sinni og tveggja ára barni. Fjórtán ára sonur konunnar dvaldi þar einnig reglulega. Maðurinn var úrskurðaður í gæsluvarðhald til 21. september vegna málsins í gær.

Samkvæmt heimildum Fréttablaðsins leikur ekki minnsti vafi á því að aðstaðan í bílskúrnum var ætluð til að framleiða hörð fíkniefni, líklega amfetamín. Innandyra fundust tól og tæki til slíkrar iðju, auk feikilegs magns af efnum og efnablöndum til framleiðslunnar, eins og heimildarmaður Fréttablaðsins orðaði það.

Ekki er vitað hversu lengi aðstaðan hefur verið brúkuð en þó eru vísbendingar um að framleiðslan hafi staðið um nokkra hríð.

Magnið af efnum var slíkt – og þau geymd í svo mörgum ílátum – að búist er við að það muni taka vísindamenn Háskóla Íslands langan tíma að greina um hvaða efni er að ræða.

Í gærmorgun voru fulltrúar sérsveitarinnar sendir að iðnaðarhúsnæði í Trönuhrauni í Hafnarfirði í tengslum við málið. Í húsinu er 55 fermetra geymsla í eigu hins handtekna, auk þess sem fyrirtæki í hans eigu er skráð þar til húsa. Lögreglumenn voru að störfum þar þangað til um miðjan dag og báru út með sér eitt og annað sem ekki er vitað hvort og þá hvernig tengist fíkniefnaverksmiðjunni.

Nágrönnum mannsins sem Fréttablaðið ræddi við er mjög brugðið vegna málsins, þótt þá hafi suma rennt í grun að ekki væri allt með felldu hjá hinum handtekna.

Fleiri höfðu ekki verið handteknir í gær en samkvæmt tilkynningu frá lögreglunni er málið mjög umfangsmikið.

stigur@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×