Innlent

Norski dómarinn vék vegna vanhæfis

Páll Hreinsson hæstarréttardómari
Páll Hreinsson hæstarréttardómari
Fulltrúi Noregs í EFTA-dómstólnum, Per Christiansen, lýsti sig vanhæfan til að dæma í málinu og vék sæti. Ástæða var ekki gefin upp formlega en talið er næsta víst að vanhæfið helgist af grein sem hann skrifaði á sínum tíma í norska blaðið Aftenposten og fjallaði um Icesave-málið. Sæti Christansens tekur varamaður hans, Ola Melstad, sem er prófessor við Evrópuréttardeild Óslóarháskóla.

Páll Hreinsson, fulltrúi Íslands í dómnum, víkur hins vegar ekki sæti, jafnvel þótt hann hafi verið formaður Rannsóknarnefndar Alþingis, en í skýrslu hennar er ítarlega fjallað um Icesave-málið og Tryggingasjóð innstæðueigenda. Í skýrslunni er þó ekki tekin afstaða til álitaefnisins sem liggur fyrir EFTA-dómstólnum, og þar sem dómararnir þurfa oftsinnis að dæma í málum heimalanda sinna víkur hann ekki sæti.

Þriðji dómarinn, og forseti dómsins, er Carl Baudenbacher, Svisslendingur sem dæmir fyrir hönd Liechtenstein.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×