Innlent

Ráðuneyti óskar eftir umsögn um náttúruverndarlög

Lagðar eru til fjölmargar breytingar í frumvarpi til nýrra náttúruverndarlaga.
Lagðar eru til fjölmargar breytingar í frumvarpi til nýrra náttúruverndarlaga. Fréttablaðið/GVA
Umhverfis- og auðlindaráðuneytið óskar nú eftir umsögnum um drög að frumvarpi til náttúruverndarlaga.

Frumvarpið felur í sér heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum og áætlað er að leggja það fram á Alþingi í haust. Meðal breytinga á fyrri lögum eru ítarlegri markmiðsákvæði en áður og eru settar fram nokkrar meginreglur sem leggja ber til grundvallar við framkvæmd laganna, þar á meðal nokkrar af helstu meginreglum umhverfisréttar.

Í tilkynningu frá ráðuneytinu kemur fram að staða almannaréttar verði styrkt, náttúruminjaskrá skuli verða nýtt meginstjórntæki náttúruverndar á Íslandi, en ráðherra skal byggja ákvarðanir um friðlýsingar á framkvæmdaáætlun hennar. Þá verði sett af stað aukið samráð við gerð áætlana, en heimilt verður að ákveða friðlýsingu í samráði við landeiganda og viðkomandi sveitarfélag þótt ekki sé gert ráð fyrir henni á framkvæmdaáætlun.

Friðlýsingaflokkum verður fjölgað úr fjórum í níu og verða ákvæði um friðun vistkerfa, vistgerða og tegunda ítarlegri en í gildandi lögum. Þá fjallar sérstakur kafli um innflutning og dreifingu framandi lífvera. Einnig er kveðið á um sérstakan Náttúruverndarsjóð.

Frumvarpsdrögin voru unnin af Aagot V. Óskarsdóttur lögfræðingi. Þau byggja á Hvítbók um löggjöf til verndar náttúru Íslands, sem gefin var út á síðastliðnu ári að teknu tilliti til athugasemda er bárust um hana. - sv




Fleiri fréttir

Sjá meira


×