Íslenski boltinn

Það ruglar enginn neitt í mér

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Kolbeinn Kárason í baráttunni fegn Fylkismönnum í sumar.
Kolbeinn Kárason í baráttunni fegn Fylkismönnum í sumar. Mynd/Ernir
Kolbeinn Kárason skoraði tvívegis í 4-0 sigrinum á Keflavík í 17. umferð Pepsi-deildar karla. Valur vann einnig 4-0 sigur í fyrri leiknum og virðist henta liðinu vel að mæta Bítlastrákunum af Reykjanesinu.

„Lokatölurnar gefa rétta mynd af leiknum og við hefðum getað unnið enn stærri sigur að mínu mati. Ég man ekki eftir því að þeir hafi átt færi í leiknum og heldur ekki í fyrri umferðinni," segir framherjinn sem hefur skorað sjö mörk í deildinni og er á meðal markahæstu manna, aðeins 21 árs að aldri.

Óhætt er að segja að skipst hafi á skin og skúrir hjá Valsmönnum í sumar. Nánast ríkir sú regla að liðið vinni og tapi leikjum til skiptis. Því væri margt vitlausara en að spá Hlíðarendapiltum tapi í leik liðsins á sunnudag gegn Stjörnunni.

„Við ætlum að breyta þessu jójó-gengi okkar," segir Kolbeinn sem tók sér frí frá knattspyrnu að loknu sínu fyrsta ári í öðrum flokki. Þá var Kolbeinn 18 ára og segist hreinlega hafa fengið leiða á fótbolta.

„Gunnlaugur Jónsson, sem þá þjálfaði Val, fékk mig til að mæta á æfingar aftur," segir Kolbeinn sem var í leikmannahópi Vals í síðasta leik Íslandsmótsins sumarið 2010. Síðan þá hefur hann æft af krafti undir stjórn Kristjáns Guðmundssonar og Freys Alexanderssonar og ber þeim vel söguna sem og liðsfélögum sínum.

„Það er stutt í húmorinn í Valsliðinu. Menn eru góðir vinir og fínasta stemning. Það eru einhverjir hrekkjarar í liðinu. Ásgeir Ingólfs og Kiddi (Kristinn Freyr Sigurðarson) og fleiri sem eru alltaf hver að stríða öðrum. Það er ekkert alvarlegt samt," segir Kolbeinn aðspurður um hvort leikmenn þurfi að vera varir um sig hver gagnvart öðrum í búningsklefanum.

„Það er enginn samt að rugla neitt í mér," segir Kolbeinn léttur en framherjinn stæðilegi gat sér gott orð í hnefaleikum á sínum tíma. Hann hefur þó enga löngun til þess að ræða hnefaleikaferil sinn frekar.

„Ég er fótboltamaður, ekki boxari," segir Kolbeinn.

Lið 17. umferðar

Markvörður

Ögmundur Kristinsson, Fram

Varnarmenn

Arnór Eyvar Ólafsson, ÍBV

Ármann Smári Björnsson, ÍA

Alexander Scholz, Stjarnan

Miðjumenn


Finnur Ólafsson, Fylkir

Tómas Leifsson, Selfoss

Rúnar Már Sigurjónsson, Valur

Einar Karl Ingvarsson, FH

Sóknarmenn


Kristinn Ingi Halldórsson, Fram

Kolbeinn Kárason, Valur

Garðar Bergmann Gunnlaugsson, ÍA




Fleiri fréttir

Sjá meira


×