Íslenski boltinn

Baldur: Virkilega falleg vika að baki

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Baldur Sigurðsson hefur skorað mikilvæg mörk fyrir KR í síðustu leikjum.
Baldur Sigurðsson hefur skorað mikilvæg mörk fyrir KR í síðustu leikjum. Mynd/Stefán
Mývetningurinn Baldur Sigurðsson hefur verið áberandi síðustu daga. Um síðustu helgi tryggði hann KR 2-1 sigur á Stjörnunni í úrslitum bikarkeppninnar með marki á lokamínútum leiksins og í fyrrakvöld skoraði hann tvö mörk í 3-1 sigri á FH í uppgjöri toppliða deildarinnar.

Með sigrinum sá KR til þess að það yrði áfram spenna í toppbaráttu deildarinnar þar sem FH hefði með sigri náð átta stiga forystu á toppnum auk þess að eiga leik til góða.

„Þetta var virkilega falleg vika," sagði Baldur við Fréttablaðið í gær. „Og virkilega ánægjulegt að hafa ekki afhent FH-ingum titilinn á silfurfati. Nú eru sex leikir eftir af tímabilinu sem verða allir eins og bikarúrslitaleikir fyrir okkur."

Hann segir virkilega góða stemningu ríkja í herbúðum KR núna. „Það er talsvert skemmtilegra að mæta á æfingar eftir sigurleiki en hitt. Það var til dæmis mjög erfitt að tapa fyrir Val [fyrr í mánuðinum] og því óskandi að við höldum áfram á þessari braut."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×