Erlent

Feðgin stukku niður af kletti

Við borgina La Jonquera á norðaustanverðum Spáni, rétt við landamæri Frakklands, hafa geisað miklir gróðureldar eins og víðar í nágrenninu.
Við borgina La Jonquera á norðaustanverðum Spáni, rétt við landamæri Frakklands, hafa geisað miklir gróðureldar eins og víðar í nágrenninu. nordicphotos/AFP
Sextugur maður og fimmtán ára dóttir hans létust þegar þau féllu eða stukku niður af kletti norðarlega við Miðjarðarhafsströnd Spánar, þar sem þau voru komin í sjálfheldu vegna gróðurelda.

Eiginkona mannsins og tvö önnur börn þeirra fóru einnig fram af klettinum en lifðu fallið af. Þetta gerðist á sunnudagskvöld í hæðunum fyrir ofan landamærabæinn Portbou.

Fjölskyldan var ásamt fleira ferðafólki frá Frakklandi á leiðinni aftur heim þegar skyndilega var ekki hægt að aka lengra vegna gróðureldanna. Fólkið neyddist til að yfirgefa bifreiðarnar og fór að fikra sig fótgangandi niður hæðirnar.

Fimm manna fjölskyldan varð viðskila við hitt fólkið og lenti í sjálfheldu með fyrrgreindum afleiðingum þar sem eldarnir þrengdu að þeim með hvössum vindhviðum.

„Það eina sem þau gátu gert var að fara í sjóinn,“ sagði Tony Buixeda, hafnarstjóri í Portbou. Hann var á báti fyrir neðan klettana þegar fólkið hrapaði niður.

Faðirinn lést samstundis eftir að hafa lent á neðansjávarklettum en dóttirin drukknaði. Móðirin liggur þungt haldin á sjúkrahúsi með bakmeiðsl, en hin börnin tvö sluppu með minni háttar meiðsli.

Miklir gróðureldar hafa geisað á norðaustanverðum Spáni undanfarna daga. Um helgina kostuðu þeir tvo aðra ferðamenn lífið.

Um 1.400 hundruð manns þurftu að flýja að heiman vegna eldanna og dvöldu í neyðarskýlum í fyrrinótt. Lestarsamgöngur lágu niðri og í borginni Figueres voru 44 þúsund íbúar hvattir til að halda sig heima við. Einnig þurfti að loka vegasamgöngum sums staðar yfir landamærin milli Spánar og Frakklands.

Um 80 hópar slökkviliðsmanna hafa unnið hörðum höndum við að halda eldunum í skefjum og notaðar hafa verið flugvélar til að varpa vatni á eldana.

Gróðureldar hafa geisað víðar í löndum Miðjarðarhafsins síðustu daga, meðal annars á Grikklandi og í Portúgal.

Á Grikklandi þurfti í síðustu viku að rýma sumarbúðir barna, elliheimili og klaustur skammt frá höfuðborginni Aþenu meðan glímt var við eldana. gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×