Innlent

Heyrðu af uppsögn á skotspónum

Glaðir leikskólakrakkar sem sóttu skemmtun á Klambratúni í fyrrasumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint.
Glaðir leikskólakrakkar sem sóttu skemmtun á Klambratúni í fyrrasumar. Myndin tengist fréttinni ekki beint. Fréttablaðið/Anton
Valgerður Anna Þórisdóttir, leikskólastjóri leikskólans Sunnufoldar, þar sem sameina á þrjá leikskóla í Grafarvogi, hefur sagt starfi sínu lausu. „Það gerði hún að eigin frumkvæði og í fullri sátt við sína undirmenn og yfirmenn hjá skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar,“ segir í svari borgarinnar við fyrirspurn blaðsins. Valgerður vildi ekki tjá sig um málið þegar eftir því var leitað.

Foreldrar barna í leikskólunum sem um ræðir í Grafarvogi hafa mótmælt fyrirhuguðum breytingum. Kjartan Magnússon, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, tók málið upp á fundi borgarstjórnar í gær og vitnaði í bréf foreldrafélags barna við Funaborg þar sem lýst var áhyggjum af áhrifum sameininganna. „Í bréfi foreldranna kemur fram áfellisdómur yfir vanhugsuðum og óvönduðum vinnubrögðum meirihluta Samfylkingar og Besta flokksins varðandi sameiningu þessara þriggja leikskóla,“ sagði Kjartan.

Síðustu tíðindi sagði hann uppsögn Valgerðar á föstudag, en hún hafi hætt störfum sama dag. „Tölvupóstur um uppsögnina var sendur til foreldra kl. 15:50 [á mánudag] eða þegar komið var nálægt lokum leikskólans. Margir foreldranna fréttu því á skotspónum að þessir þrír skólar væru orðnir skólastjóralausir eða lásu það af miðum, sem festir höfðu verið upp á hurðir skólanna þegar þeir sóttu börn sín í gær,“ sagði hann. - óká




Fleiri fréttir

Sjá meira


×