Erlent

Hátt í fimmtíu lík fundust á þjóðvegi

Vígalegur mexíkóskur lögreglumaður á þjóðveginum þar sem 49 aflimuð lík fundust í gær. fréttablaðið/AP
Vígalegur mexíkóskur lögreglumaður á þjóðveginum þar sem 49 aflimuð lík fundust í gær. fréttablaðið/AP
Fjörutíu og níu aflimuð og afskræmd lík fundust í plastpokum á þjóðvegi sem tengir saman borgina Monterrey og bandarísku landamærin. Þetta er enn eitt áfallið í baráttu yfirvalda gegn sífellt versnandi stríði á milli mexíkóskra eiturlyfjagengja.

Skipulögð glæpagengi í Mexíkó skilja oft eftir lík á fjölförnum stöðum til að senda andstæðingum sínum skilaboð. Einhver fórnarlambanna sem fundust á þjóðveginum í gær báru húðflúr Santa Muerte-samtakanna sem eru vinsæl á meðal eiturlyfjasala. Ekki er samt útilokað að fórnarlömbin hafi verið fólk sem ætlaði að flýja yfir landamærin til Bandaríkjanna.

Að sögn lögreglunnar í sýslunni Nuevo Leon var borði skilinn eftir þar sem líkin fundust með skilaboðum frá eiturlyfjahringnum Zetas þar sem hann lýsti ábyrgð fyrir fjöldamorðunum á hendur sér. Erfitt var að bera kennsl á líkin vegna þess að búið var að skera af þeim höfuðin, hendurnar og fæturna.

Barátta mexíkóskra eiturlyfjahringja hefur farið harðnandi að undanförnu. Þeir svífast einskis til að öðlast stjórn yfir svæðunum sem notuð eru til að smygla eiturlyfjum til Bandaríkjanna, auk þess sem þeir berjast um yfirráð á eiturlyfjamarkaðnum heima fyrir. Einnig beita þeir ítrekað fjárkúgunum og herja oft á þá sem reyna að komast ólöglega til Bandaríkjanna.

Í september skildi Sinaloa-hringurinn eftir 35 lík við þjóðveg skammt frá borginni Veracruz og nokkrum dögum síðar fann lögreglan 32 lík til viðbótar skammt frá. Svo virtist sem sami eiturlyfjahringur hafi þar verið að verki. Í nóvember fundust 26 lík í Guadalajara, sem er svæði þar sem Zetaz- og Sinola-hringirnir hafa barist um yfirráð.

Á síðasta ári fundust 193 lík í fjöldagröf í bænum San Fernando. Talið er að þetta hafi verið flóttamenn sem voru drepnir af Zetas-hringnum. 72 flóttamenn til viðbótar, margir frá Mið-Ameríku, fundust drepnir í San Fernando árið 2010.

freyr@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×