Íslenski boltinn

Ingó Veðurguð: Fótboltinn er kominn í forgang

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Ingólfur hefur ekki verið mjög hátt skrifaður sem fótboltamaður en blómstraði í leiknum gegn ÍBV þar sem hann var aðalstjarna vallarins.
Ingólfur hefur ekki verið mjög hátt skrifaður sem fótboltamaður en blómstraði í leiknum gegn ÍBV þar sem hann var aðalstjarna vallarins. Mynd/Daníel
Frammistaða Ingólfs Þórarinssonar, miðjumanns Selfyssinga, gegn ÍBV vakti verðskuldaða athygli. Hann var maðurinn á bak við frábæran 2-1 sigur Selfyssinga sem nær allir spá neðsta sæti í Pepsi-deildinni í sumar.

„Það sem hefur breyst hjá mér er líkamlega ástandið og forgangsröðunin. Tónlistin situr aðeins á hakanum núna á meðan fótboltinn er í forgangi," sagði Ingólfur en hann er landsþekktur tónlistarmaður og stanslaus spilamennska síðustu sumur hefur ekki hjálpað honum mikið við að taka framförum sem knattspyrnumaður.

„Svo er ég líka með þjálfara núna sem hefur trú á mér og setur traust á mig. Hugarfar mitt hefur breyst og ég fórna meiru en áður. Fótboltinn hefur verið til hliðar við spileríið áður og ég bara mætt á einstaka æfingu kannski. Ég hef líka lyft mikið og styrkt mig. Ég er lítill og léttur og þarf að vera sterkari til þess að keppa við þá bestu. Við höfum svolítið verið í því að horfa á lóðin en núna fórum við að lyfta þeim almennilega."

Ingólfur er orðinn 25 ára gamall og hann viðurkennir að vera fyrst núna að taka fótboltann af fullri alvöru.

„Nú er ég farinn að hafna kannski fjórum til fimm „giggum" á mánuði. Tónlistin hefur tekið sinn toll hér áður og orðið til þess að ég hafði ekki orku í annað. Nú geri ég þetta af krafti og spila ekki tónlist langt fram á nótt," sagði Ingólfur en hann er þar með að gefa frá sér talsverðar tekjur ólíkt flestum öðrum í deildinni.

„Ég er eiginlega að borga helling með mér til þess að vera í fótbolta. Mér finnst aftur á móti mjög gaman í fótbolta og það er gaman að taka þátt í því á meðan maður er ungur og getur gert það. Ég get spilað meira á gítarinn seinna. Ég get spilað á sveitaballi þegar ég er orðinn fertugur en ólíklegt að ég geti spilað í Pepsi-deildinni á sama aldri," sagði Ingólfur en er þessi leikur hans bara einn smellur?

„Ég ætla rétt að vona ekki. Ég tel mig alveg geta bætt í."

Selfyssingar njóta þess að það er engin pressa á þeim í deildinni þar sem allir spá þeim niður. Ingólfur segir að það henti liðinu ágætlega.

„Fyrir vikið getum við mætt afslappaðir í leiki og selt okkur dýrt. Það er einnig gott fyrir mig að margir líta bara á mig sem einhvern tónlistarmann og sprellara," sagði Ingólfur en ef hann heldur áfram að spila eins og hann gerði gegn ÍBV er ekki langt í að andstæðingarnir fari að taka hann mjög alvarlega.

„Við erum svolítið óskrifað blað. Við erum líklega með reynsluminnsta liðið í deildinni og það er því eðlilegt að okkur sé spáð sæti neðarlega. Við teljum okkur samt vera töluvert sterkari en 2010. Það er samkeppni um stöður núna en það var ekki þannig fyrir tveimur árum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×