Íslenski boltinn

Svona verður miðjumoðið

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Eyjamenn verða að sætta sig við meðalmennsku í ár eftir að hafa verið í toppbaráttu síðustu sumur samkvæmt spánni. Andri Ólafsson og Tryggvi Guðmundsson spila ekki fyrstu leikina.fréttablaðið/anton
Eyjamenn verða að sætta sig við meðalmennsku í ár eftir að hafa verið í toppbaráttu síðustu sumur samkvæmt spánni. Andri Ólafsson og Tryggvi Guðmundsson spila ekki fyrstu leikina.fréttablaðið/anton
Fréttablaðið spáir því að sumarið hjá Val, ÍBV og Breiðabliki verði lítt spennandi. Þau munu ekki verða í toppbaráttu og ekki heldur í botnbaráttu.  Þau verða í þessu klassíska miðjumoði samkvæmt spánni og Willum Þór er því sammála.

8. sæti: BreiðablikBlikarnir höndluðu það engan veginn að spila sem handhafar Íslandsmeistaratitilsins í fyrra. Þeir hafa misst marga lykilmenn frá meistaraárinu og Blikar hafa ekki fyllt þau skörð sem skyldi. Það kemur því í hlut þeirra stórefnilegu leikmanna að stíga upp.

„Það eru mikil gæði í þessu liði og boltinn flýtur hvað best á milli manna hjá Breiðabliki. Það er munstur í þeirra leik og þeir vilja færa boltann fram völlinn með ákveðnum hætti," segir Willum og bætir við að reynsluleysi liðsins gæti átt eftir að reynast þeim erfitt.

„Það vantar meiri styrk og kraftmeiri leikmenn með hinum. Ef þeir hefðu það gætu þeir barist ofar á töflunni. Það vantar ekki mikið upp á hjá þeim. Það er erfitt að spila gegn þeim því þeir halda boltanum vel en það er fullauðvelt að refsa þeim."

Leikmennirnir sem eru horfnir á braut voru ekki bara lykilmenn heldur líka leiðtogar.

„Þeir misstu mikinn leiðtoga í Kára Ársæls. Guðmundur Kristjáns var maðurinn sem kom með kraftinn í þeirra leik og svona mætti áfram telja. Það munar um minna og ekki hægt að framleiða endalaust svona menn þó svo að Blikar búi vel með unga leikmenn. Það er allt annar bragur á þeim inn í mótið núna en í fyrra," segir Willum.

„Þeir höndluðu engan veginn pressuna í fyrra. Þeir eru veikari núna en liðsheildin gæti verið þéttari í ár enda allt önnur pressa. Það verður auðveldara fyrir þá og þeir eru reynslunni ríkari."

7. sæti: ÍBVÞað skiptir alltaf máli að byrja vel á Íslandsmóti og það verður ekki auðvelt fyrir ÍBV enda Tryggvi Guðmundsson, Andri Ólafsson og Gunnar Már Guðmundsson meiddir. Eyjamenn eru líka með nýjan þjálfara en Magnús Gylfason hefur tekið við starfinu af Heimi Hallgrímssyni.

„Það er eitthvað sem segir mér að ÍBV lendi strax í vandræðum í fyrsta leik gegn Selfossi sem er búið að bíða eftir þessum leik örugglega í tvö ár. Tímabilið markast mikið af byrjuninni. Það verður að byrja vel og það er ekkert í spilunum sem segir manni að ÍBV muni byrja vel án þessara manna. Þessi forföll eru of mikil," segir Willum og hann segir nær öruggt að ÍBV verði ekki í neinni toppbaráttu í ár.

„Mér líst vel á Magnús í Eyjum. Hann á góða sögu þar og virkaði vel síðast. Fyrst að Heimir ákvað að hætta fannst mér eðlilegt að Maggi tæki við. Verkefnið verður ekki auðvelt og líka erfitt að fylgja á eftir Heimi sem var búinn að vinna frábært starf."

6. sæti: ValurEnn eitt árið eru miklar mannabreytingar hjá Valsmönnum. Engar stórstjörnur hafa gengið til liðs við Val og ekki að sjá að þeir sem þangað eru komnir muni lyfta liðinu í hæstu hæðir.

„Þeir hafa bætt við sig mönnum. Lykilmennirnir eru Atli Sveinn og Haukur. Spurning hvort Guðjón Pétur verður kominn í fullt form nógu tímanlega. Þeir eru með ágætis breidd en ég á alveg eftir að sjá að allir þessir strákar sem komu úr 1. deildinni standist álagið í efstu deild," segir Willum og hann býst við að sóknarleikurinn verði aftur höfuðverkur Vals.

„Atli Heimisson er athyglisverður leikmaður sem gæti skorað mörk. Hörður Sveins var slakur í fyrra en kann að skora mörk. Það eru mörg spurningamerki í Valsliðinu. Vörnin verður þó í lagi og erfitt að skora hjá þeim eins og áður."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×