Skoðun

Bændur eiga réttinn í Þjórsá

Orri Vigfússon skrifar
Í greinum sem forstjórar Landsvirkjunar og Veiðimálastofnunar skrifuðu í Fréttablaðið í nýliðinni viku gætir talsverðs misskilnings á laxafiskastofnum og vistkerfi þeirra í Þjórsá. Landsvirkjun á hvorugt. Fiskurinn og búsvæði hans er auðlind í eigu veiðiréttareigenda, lögvarin af stjórnarskrá landsins. Fyrir all löngu fékk Landsvirkjun leyfi til ýmissa aðgerða til að meiri arður kæmi úr raforkuframleiðslunni en greiddi fyrir það leyfi með gerð fiskistiga við Búða. Eftir stendur fiskurinn og vistkerfið í eigu bænda og landeigenda. Veiðifélag Þjórsár ber lögum samkvæmt ábyrgð á nýtingu fiskstofnanna í ánni og á að gæta hagsmuna veiðiréttareigenda við ána þar sem verndun til framtíðar er forgangsmál.

Þegar mat er lagt á vistkerfi laxfiska í Þjórsá verður það að byggjast á núverandi stöðu lífríkis árinnar en ekki hvað það gæti hafa verið tiltekna áratugi aftur í tímann miðað við forsendur sem Landsvirkjun og Veiðimálastofnun ætla að gefa sér. Slík aðferðafræði leiðir til þess að miða yrði við aðstæður fyrir landnám. Hvað gert er í dag er ákvörðun landeigenda en ekki Landsvirkjunar. Það er misskilningur að Landsvirkjun geti tekið sér vald til að rýra vistkerfi í eigu bænda við Neðri Þjórsá með því að auðga það hjá bændum í efri hluta árinnar.

Við mat á áhrifum virkjana væri einnig óskandi að forstjórarnir kæmu sér saman um hvort þeir telji hægt að notast við reynsluna frá Columbia- og Snake-ánum í Bandaríkjunum. Forstjóri Landsvirkjunar segir ekki hægt að bera þær saman við Þjórsá en forstjóri Veiðimálastofnunar vitnar til þeirra til marks um ágæti fyrirhugaðra mótvægisaðgerða. Eins og NASF hefur bent á sýnir reynslan frá Bandaríkjunum að engar af óhemju dýrum mótvægisaðgerðum virkjanafyrirtækja þar hafa megnað að koma í veg fyrir hrun fiskstofna í ánum vestra.




Skoðun

Sjá meira


×