Íslenski boltinn

Einstakt sumar hjá Atla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Atli Guðnason var frábær með FH-liðinu í sumar. en hér sést hann í leik á móti íA á Akranesi.
Atli Guðnason var frábær með FH-liðinu í sumar. en hér sést hann í leik á móti íA á Akranesi. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Atli Guðnason skrifaði sig á spjöld sögunnar í Pepsi-deildinni í sumar með því að slá öllum leikmönnum deildarinnar við í bæði markaskorun og því að leggja upp mörk fyrir félaga sína. Atli fór á kostum með meistaraliði FH og var lykilmaður í því að Íslandsmeistarabikarinn er kominn í Krikann á nýjan leik. Í gær kom síðan í ljós að leikmenn deildarinnar höfðu kosið Atla besta leikmanninn.

Atli skoraði tólf mörk sjálfur og átti að auki þrettán stoðsendingar á félaga sína. Hann kom því með beinum hætti að 25 mörkum FH-liðsins í sumar eða rétt tæplega helmingi marka Hafnarfjarðarliðsins. Tveir aðrir leikmenn komast einnig inn á báða topplista en það eru Valsmaðurinn Rúnar Már Sigurjónsson (7 mörk og 9 stoðsendingar) og Fylkismaðurinn Ingimundur Níels Óskarsson (10 mörk og 6 stoðsendingar).

Atli keppti um gullskóinn við Framarann Kristinn Inga Halldórsson í lokaumferðinni en hvorugur náði að skora og því nægði tólfta mark Atla frá því á móti ÍA í 20. umferðinni til þess að tryggja honum markakóngstitilinn.

Atli var lengstum í sumar í baráttu við KR-inginn Óskar Örn Hauksson um að vinna stoðsendingarnar. Óskar Örn gaf fjórar stoðsendingar í fyrstu tveimur leikjunum og var með eina stoðsendingu í forskot á Atla eftir innbyrðisleik KR og FH 23. ágúst. Atli jafnaði Óskar Örn í næsta leik og átti síðan sigurinn vísan þegar Óskar Örn fór út til Noregs og spilaði ekki með KR í síðustu fimm leikjunum. Atli fór endanlega upp fyrir Óskar Örn með því að leggja upp tvö mörk í sigri FH á Keflavík.

Stoðsendingar hafa verið teknar saman í efstu deild karla frá og með sumrinu 1992 og Atli jafnaði einnig stoðsendingamet Tryggva Guðmundssonar frá 2008 með því að gefa sína þrettándu stoðsendingu í lokaleiknum á laugardaginn.

Tryggvi var með sömu tölur og Atli þegar FH vann titilinn fyrir fjórum árum, gaf þá 13 stoðsendingar og skoraði 12 mörk. Tryggvi náði hins vegar ekki að vera markakóngur deildarinnar því bæði Keflvíkingurinn Guðmundur Steinarsson (16) og KR-ingurinn Björgólfur Takefusa (14) skoruðu fleiri mörk en hann það sumar.

Á toppnum á tveimur stöðumAtli Guðnason var bæði sá leikmaður sem skorað mest og lagði upp flest mörk í Pepsi-deild karla í sumar.



Flest mörk

Atli Guðnason, FH        12

Kristinn Ingi Halldórsson, Fram        11

Ingimundur Níels Óskarsson, Fylki        10

Björn Daníel Sverrisson, FH        9

Christian Steen Olsen, ÍBV        9

Garðar Bergmann Gunnlaugsson, ÍA        9

Kjartan Henry Finnbogason, KR        8

Garðar Jóhannsson, Stjörnunni        8

Flestar stoðsendingar

Atli Guðnason, FH    13

Óskar Örn Hauksson, KR    10

Rúnar Már Sigurjónsson, Val    9

Alex Freyr Hilmarsson, Grindavík    7

Rafn Andri Haraldsson, Breiðabliki    6

Ingimundur Níels Óskarsson, Fylki    6






Fleiri fréttir

Sjá meira


×