Innlent

Skora á stjórnvöld að standa við gefin loforð

Mynd tengist frétt ekki beint
Mynd tengist frétt ekki beint mynd/vilhelm
Stjórn og trúnaðarmannaráð Framsýnar stéttarfélags samþykkti ályktun um að skora á ríkisstjórn Íslands að standa við gefin loforð og undirritaðar yfirlýsingar, sem verða kjör og réttindi launafólks í landinu.

Í tilkynningu frá félaginu segir að aðalefni fundarins hafi verið kjaramál. Hörð gagnrýni kom fram á fundinum með framkomu stjórnvalda í garð verkafólks. „Óþolandi væri að ríkistjórn Íslands stæði ekki við gefin loforð um velferð, jöfnuð og réttlæti. Þess í stað væri vanda hrunsins varpað miskunnarlaust og grímulaust yfir á launafólk, sem birtist m.a. í skefjalausum skattahækkunum, gjaldskrárhækkunum og skerðingum á bótum almannatrygginga," segir í tilkynningunni.

Í næstu viku mun það ráðast hvort að kjarasamningum verði sagt upp eða ekki. „Ljóst er að stjórnvöld hafa ekki staðið við sínar yfirlýsingar sem fylgdu undirskrift síðustu kjarasamninga milli Samtaka atvinnulífsins og aðildarfélaga Alþýðusambands Íslands. Kjarasamningar eru því í fullkomnu uppnámi að mati stjórnar- og trúnaðarmannaráðs Framsýnar."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×