Innlent

Maðurinn látinn

Jóhanna Margrét Gísladóttir skrifar
Karlmaður sem var inni í íbúð í Ofanleiti þegar gríðarlega öflug sprenging varð þar í gærdag er látinn. Lögreglan hefur komist að þeirri niðurstöðu að sprenginguna megi rekja til gasleka.

Í tilkynningu frá lögreglu sem barst síðdegis kemur fram rannsókn á sprengingunni hafi leitt í ljós að ellefu kílóa gaskútur hafi verið í íbúðinni. Ljóst sé að úr honum hafi lekið í nokkurn tíma áður en sprengingin varð en illa hafi verið lokað fyrir krana á kútnum.

Tæknideild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vann að rannsókninni og átti samstarf við sprengjusérfræðinga Ríkislögreglustjóra og Landhelgisgæslu ásamt fulltrúum Vinnueftirlits og Mannvirkjastofnunar.

Sprengingin átti sér stað um klukkan ellefu í gærmorgun og var hún mjög kröftug að sögn sjónarvotta en glerbrot úr rúðum hússins þeyttust tugi metra út á götu og yfir leikvöll sem er beint fyrir framan húsið.

Tæplega fertugur karlmaður sem var í íbúðinni þegar sprengingin varð lést eftir hádegi í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×