Innlent

Óásættanlegt að 100 þúsund munar á launum

Ragnheiður Alfreðsdóttir starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landpítalanum. Hún er ein þeirra 260 hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp stöfum á spítalanum.
Ragnheiður Alfreðsdóttir starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landpítalanum. Hún er ein þeirra 260 hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp stöfum á spítalanum. Mynd/Stöð 2
Hjúkrunarfræðingur með 32 ára reynslu og sex ára háskólamenntun segir óásættanlegt að aðeins um hundrað þúsund krónum muni á launum hennar og þess sem er nýútskrifaður í faginu. Laun þurfi að hækka svo hún dragi uppsögn sína til baka.

Ragnheiður Alfreðsdóttir starfar sem hjúkrunarfræðingur á Landpítalanum. Hún er ein þeirra 260 hjúkrunarfræðinga sem sagt hafa upp stöfum á spítalanum.

„Nú segi ég upp vegna þess að ég er ósátt við það hvernig hjúkrunarfræðingar, sem stór stétt, hefur verið meðhöndluð launalega séð," segir Ragnheiður.

Hún hóf störf á Landspítalanum árið 1979 og hefur hún unnið við hjúkrun allar götur síðan, meðal annars í tólf ár í gjörgæsludeildum í Svíþjóð. Í dag fær er hún með um 386 þúsund krónur í laun fyrir 100% vinnu í dagvinnu. Nýútskrifaðir hjúkrunarfræðinar fá rúmlega 280 þúsund krónur í laun fyrir sömu vinnu og er munurinn um 105 þúsund krónur.

„Mér finnst þetta ekki ásættanlegt fyrir mig persónulega með mína færni og reynslu en mér finnst það ekki heldur fyrir hjúkrunarfræðinga til frambúðar þeir sem eru að hugsa sér til þess að fara í hjúkrun þá er þetta ekki spennandi fyrir þá að vita það að það sé ekki frami innan stéttarinnar."

Ragnheiður segir þá launatöflu sem er í gildi illa nýtta en fáir fái greidd laun eftir efri launaflokkunum eða yfir 396 þúsund krónum.

„Landspítalinn er ekki að nýta þá möguleika sem þeir geta af töflunni eins og hún er í dag."

Hún segir að til þess að hún dragi uppsögn sína til baka verði laun hjúkrunarfræðinga að hækka.

„Allir hjúkrunarfræðingar, allir sem einn fái hærri laun," segir hún að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×