Erlent

Telja sig hafa fundið beinagrind Ríkharðs III Englandskonungs

Breskir fornleifafræðingar eru þess fullvissir að þeir hafi fundið beinagrind Ríkharðs III Englandskonungs. Beinin verða nú send í DNA rannsókn til að fá endanlega úr þessu skorið.

Ríkharður III féll í orrustunni við Bosworth árið 1485 og var hann síðasti konungur Plantagenet ættarinnar á Englandi. William Shakespeare gerði Ríkharð III ódauðlegan í einu leikrita sinna sem ber sama nafn og konungurinn.

Það sem styður fornleifafræðingana í vissu sinni er að höfuðkúpan á beinagrindinni er klofin eftir axarhögg sem passar við sögulegar heimildir og að viðkomandi bjó við töluverða hryggskekkju. Þó ekki svo mikla að um kroppinbak væri að ræða eins og Shakespeare lýsir konunginum.

Þá má nefna að staðurinn sem beinagrindin fannst á er undir bílastæðum á vegum bæjarstjórnarinnar í Leicester. Þar stóð áður klaustur sem eyðilagt var árið 1530. Búið er að grafa upp grunn þess og kapellu. Vitað er að Ríkharður III var grafinn við þetta klaustur með lítilli viðhöfn strax eftir orrustuna við Bosworth.

Með fyrrgreindri orrustu lauk Rósastríðinu svokallaða og valdaskeið Tudor ættarinnar hófst í Englandi,




Fleiri fréttir

Sjá meira


×