Innlent

Tvær milljónir ferðamanna fyrir lok áratugar

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt ræðu um málið á ráðstefnu á Hilton í dag.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, hélt ræðu um málið á ráðstefnu á Hilton í dag. mynd/ gva.
„Innan tíðar, á þessum áratug, má vænta þess að tvær milljónir ferðamanna sæki Ísland heim árlega. því þurfum við að sameinast um þjóðaráætlun til að taka á móti þessum gestum." Þetta sagði Hr. Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í niðurlagi ávarps síns á Hótel Nordica í dag.

Ólafur Ragnar steig í pontu í þéttsetnum hátíðarsal Nordica eftir að Icelandair frumsýndi nýtt kynningarmyndband þar sem starfsemi, rekstri og framförum fyrirtækisins er hampað ásamt því að undirstrika þau miklu áhrif sem félagið hefur haft á atvinnurekstur og nýsköpun á Íslandi.

Icelandair fagnar nú 75 ára starfsafmæli sínu og því var blásið til ráðstefnu þar sem sex sérfræðingar á sviði ferðaþjónustu komu fram.

Í ávarpi sínu sagði Ólafur að breyttir tímar væru nú í ferðaþjónustu landsins. Þá benti hann á þrjár ómetanlegar auglýsingarherferðir sem hefðu, ópantaðar, fallið í kjöltu Íslendinga.

„Bankahrunið og eldgosin í Eyjafjöllum og Grímsvötnum hafa gert Ísland að umfjöllunarefni heimsbyggðarinnar. Ísland er nú heimsstaður sem allir kannast við, rétt eins og Wall Street, París eða Genf."

Þá vék Ólafur Ragnar orðum sínum að þeim breytingum sem óneitanlega verða að veruleika á næstu árum í ferðaiðnaði landsins.

„Þverrandi ísforði heimsins, nábýlið við Grænland og staðsetning Íslands býður upp á mikla nýsköpun í ferðaþjónustu. Brátt verður Ísland í farabroddi á nýjan hátt: Ísland sem alþjóðleg skiptistöð," sagði Ólafur Ragnar og bætti við: „Jörðin sjálf, hnattstaða landsins er okkar stóra tromp."

Þá mun náttúra Íslands sem fyrr heilla ferðamenn á næstu árum eða „hin ramma gjöf manns og náttúru sem færð er Íslendingum í vöggugjöf."

En áhugi ferðamanna beinist samt sem áður ekki aðeins að bergmáli klettahallanna eða hrikalegum jöklamyndunum.

„Orkuver verða nú að ferðamannastöðum," sagði Ólafur Ragnar. „Baráttan gegn loftsslagsbreytingum hefur myndað áhuga á nýrri orku. Ísland er eitt helsta sýnishorn um viðbrögð við þeirri hættu. Þess vegna hafa ferðamenn áhuga á orkunni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×