Innlent

Gamlir neyðarkallar hlupu strax í skarðið

Stigvaxandi sala hefur verið á Neyðarkallinum frá því að Slysavarnafélagið Landsbjörg hóf sölu hans í fjáröflunarskyni árið 2006. Sá fyrsti sem er lengst til vinstri er uppseldur og sagður eftirsóttur hjá söfnurum. Neyðarkallinn í ár er hér fremstur í flokki.
Stigvaxandi sala hefur verið á Neyðarkallinum frá því að Slysavarnafélagið Landsbjörg hóf sölu hans í fjáröflunarskyni árið 2006. Sá fyrsti sem er lengst til vinstri er uppseldur og sagður eftirsóttur hjá söfnurum. Neyðarkallinn í ár er hér fremstur í flokki. Mynd/Slysavarnafélagið Landsbjörg
Sala á Neyðarkalli Slysavarnafélagsins Landsbjargar gekk svo vel að sumar björgunarsveitir kláruðu birgðir sínar og gripu þá til eldri gerða af Neyðarkalli. Allt að 75 þúsundum eintaka keypt og tekjurnar fara yfir 100 milljónir króna.

„Almenningur tók sölufólkinu mjög vel og margar sveitir seldu upp sinn skammt,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, um söluna á Neyðarkallinum svokallaða um helgina.

Þó að sumar björgunarsveitirnar hafi orðið uppiskroppa með Neyðarkalla dóu menn ekki ráðalausir. „Það var verið að draga fram eldri gerðir. Það er líka svolítil eftirspurn eftir þeim því það eru margir byrjaðir að safna og vantar kannski inn í seríuna,“ segir Ólöf. „Þetta voru helst rústabjörgunargæinn, konan með skíðin og eitthvað af sjóbjörgunarmanninum.“

Fyrsti Neyðarkallinn af samtals sjö kom 2006. Sá heldur á talstöð og Ólöf segir hann nú alveg uppseldan og mjög eftirsóttan. „Ég býst við að sjá hann á eBay eftir nokkur ár á hundrað þúsund kall. Ég held að það sé eiginlega ekkert heldur til af fyrstu konunni sem kom 2008. Hún er með bakpoka og ísöxi.“

Neyðarkallarnir hafa allir verið hannaðir af Margréti Laxdal og framleiddir í Kína. Ólöf segir söluna hafa stigmagnast með hverju ári.

„Við erum að fara fram úr okkar björtustu vonum. Þessi fjáröflun hefur verið þannig að við höfum selt meira á hverju ári en árið þar á undan,“ segir Ólöf, sem aðspurð segir ekki hægt að segja til að svo stöddu um heildarsöluna í þetta skipti. „Núna erum við einhvers staðar á bilinu 65 til 75 þúsund kallar seldir.“

Hver kall er á 1.500 krónur, þannig að tekjurnar hjá Slysavarnafélaginu Landsbjörg nema líklegast yfir 100 milljónum. „Það var mjög góð sala alls staðar. Við náðum einhvern veginn að komast fram hjá því að þetta óveður setti strik í reikninginn. Víða stukku slysavarnadeildir og unglingadeildir inn og tóku yfir söluna á meðan björgunarsveitin fór í útköll. Það voru allir að hjálpast að,“ segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir. gar@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×