Fótbolti

Marklínutækni fær grænt ljós | Notuð á HM 2014

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Marklínutæknibúnaður í prófun.
Marklínutæknibúnaður í prófun. Nordicphotos/Getty
Alþjóðknattspyrnusambandið (FIFA) tilkynnti í dag að notkun marklínutækni, til þess að skera úr um hvort mark hafi verið skorað, hafi verið samþykkt. Reiknað er með því að tæknin verði nýtt á heimsmeistarmótinu í Brasilíu 2014.

Tvö kerfi, „Hawk-Eye" og „GoalRef", hafa verið samþykkt af IFAB, alþjóðlegum knattspyrnusamtökum sem koma að ákvarðanatökunni ásamt FIFA.

Nýta á tæknina í heimsmeistarakeppni félagsliða í Japan í desember og einnig í álfukeppninni á næsta ári. Möguleiki er að einstaka deildakeppnir líkt og enska úrvalsdeildin innleiði tæknina í upphafi árs 2013.

Jerome Valcke, framkvæmdastjóri FIFA, segir að FIFA muni greiða fyrir uppsetningu búnaðarins á leikvöngum stórmótanna. Kostnaður við búnaðinn er 250 þúsund dollarar á leikvang eða sem nemur um 30 milljónir íslenskra króna.

Sepp Blatter, forseti FIFA, var upphaflega á móti því að tæknin yrði notuð. Hann skipti hins vegar um skoðun eftir að Úkraína skoraði mark sem fékk ekki að standa í riðlakeppni Evrópumótsins í knattspyrnu í sumar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×