Innlent

Veður fer versnandi á Vestfjörðum

„Nóttin var nokkuð róleg hjá okkur," segir Reimar Vilmundarson hjá Björgunarsveitinni Erni í Bolungarvík. Óveður geisar nú á Vestfjörðum og eru vegir meira eða minna lokaðir eða ófærir. Í nótt náði vindhraði víða þrjátíu metrum á sekúndu og í vindhviðum náði hann allt að fimmtíu metrum á sekúndu.

Útköll Björgunarsveitarinnar Ernis hafa verið af ýmsum toga. Þakplötur losnuðu af einu húsi, ruslatunnur hafa fokið og flotbryggja losnaði. „Það fylgja alltaf einhver verkefni í hávaðaroki," segir Reimar. Hann tekur fram að björgunarsveitin verði í viðbragðsstöðu fram eftir degi.

Reimar segir veðrið hafa versnað töluvert í morgun. „Maður veit ekki hvort að hámarkinu hefur verið náð. En það hvessti í morgun og snjókoman er nú að aukast eitthvað."

Gert er ráð fyrir að óveðrið nái hámarki um miðjan dag. Er fólki ráðlagt að halda sig heima er unnt er.


Tengdar fréttir

Björgunarsveitir í viðbragðsstöðu

Nokkur útköll sem rekja má til veðurs hafa verið hjá björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í nótt. Voru þau öll minniháttar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×