Innlent

Ekkert ferðaveður á Vestfjörðum - nóttin gekk stóráfallalaust

Mynd/Anton Brink
Ekkert ferðaveður er á Vestfjörðum og eru vegir meira eða minna lokaðir eða ófærir. Á norðanverðum Vestfjörðum er vindhraði víða um þrjátíu metrar á sekúndu og í vindhviðum nær hann allt að fimmtíu metrum á sekúndu.

Samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum hefur nóttin þó gengið nokkuð vel eða stóráfallalaust. Þá er fólki bent á að fara sér hægt nú í morgunsárið og halda sig heima ef unnt er.

Skömmu eftir miðnætti fór rafmagn af í Bolungarvík, á Ísafirðir og víðar. Vegna snjóflóðahættu er enn lokað um Súðavíkurhlíð, Eyrarhlíð, Botnsdal og Flateyrarveg.

Rólegt var hjá lögreglunni á Vestfjörðum í nótt og þurfti hún ekki að sinna neinum útköllum. Ríkislögreglustjóri lýsti í gærkvöldi yfir hættustigi almannavarna vegna snjóflóða á Patreksfirði, á Ísafirðir og í Súðavík og er það enn í gildi.

Á norðurlandi mun óveðrið ná hámarki um miðjan daginn. Áfram verður þó hríðarveður og skafrenningur með litlu skyggni í allan dag. Ófært er bæði um Siglufjarðarveg og Ólafsfjarðarmúla. Austantil á Norðurlandi verður vindur hægari eða þrettán til átján metrar á sekúndu.

Á Suðurlandi er víða krapi eða nokkur hálka. Ofankoma er á Hellisheiði og í Þrengslum, og snjóþekja og eða krap. Eins er krapi á Reykjanesbraut og flestum vegum á Suðunesjum. Þungfært er á milli Hafna og Grindavíkur og eins og Suðurstrandarvegi. Mokun stendur yfir.

Óveður er á Snæfellsnesi. Fróðárheiði er ófær en þar er stórhríð. Á Holtavörðuheiði er hálka og óveður en snjóþekja og óveður á Bröttubrekku og í Dölum. Svínadalurinn er ófær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×