Innlent

Spyr hvort forsvarsmenn Valitors og Borgunar hafi logið að Alþingi

VG skrifar
Árni Þór Sigurðsson, þingmaður Vinstri grænna, segir á Facebook-síðu sinni að Valitor og Borgun hafi hugsanlega verið tvísaga þegar þeir voru kallaðir fyrir á fund Allsherjarnefndar þegar fyrirtækin ákváðu að loka fyrir greiðslugátt WikiLeaks á síðasta ári. Áður hafði danska fyrirtækið Teller gert slíkt hið sama.

Dómur féll í dómsmáli DataCell gegn Valitor í gær. Valitor var þá gert að opna greiðslugáttina á ný innan tveggja vikna ella greiða 800 þúsund krónur í dagsektir.

Í pistli Árna Þós rifjar hann upp yfirlýsingar fyrirtækjanna vegna fundanna hjá nefndinni, sem fram fóru í desember árið 2010, en þær voru eftirfarandi:

„Borgun vill koma á framfæri leiðréttingu varðandi fréttir sem birst hafa í fjölmiðlum í kjölfar fundar Allsherjarnefndar Alþingis í morgun varðandi málefni Wikileaks. Skýrt kom fram á umræddum fundi, og skal ítrekað, að Borgun er ekki aðili þessa máls. Á fundinum voru auk fulltrúa Borgunar, fulltrúar Valitors og Kortaþjónustunnar. Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS (áður PBS) og hafði með höndum viðskipti Wikileaks við MasterCard International og VISA Europe. Borgun kemur hvergi þar nærri."

Svo kom tilkynning frá Valitor:

„VALITOR vill koma á framfæri að á umræddum fundi Allherjarnefndar í morgun voru einnig fulltrúar Kortaþjónustunnar ásamt þremur fulltrúum Teller, en Kortaþjónustan er umboðsaðili Teller AS á Íslandi. Fram hefur komið að Teller AS/Kortaþjónustan sá um að móttaka greiðslur fyrir Wikileaks sem nú hefur verið lokað fyrir. Við viljum því ítreka að VALITOR er ekki aðili að þessu máli."

Árni Þór bætir svo við: „En fyrirtækin vildu ekki kannast við það þegar þau mættu fyrir þingnefnd, að þau ættu aðild að málinu og væru einungis að fylgja fyrirskipunum að utan og ætluðu sér alls ekki að taka þátt í því að brjóta lög hérlendis".

Árni Þór segir í samtali við fréttastofu að misræmið veki athygli sína. „Þeir virðast hafa orðið tvísaga í málinu," bætir hann við. Aðspurður hvort það sé ekki litið alvarlegum augum að það sé logið að Alþingi, ítrekar Árni Þór að ef svo sé, þá þurfi fyrirtækin að svara fyrir sig, en hann viti ekki til þess að forsvarsmenn fyrirtækjanna verði aftur kallaðir fyrir allsherjarnefnd eða efnahags- og viðskiptanefnd.

á fundinum á síðasta ári kom þar fram hörð gagnrýni á ákvörðun greiðslukortafyrirtækisins, „og vildu sumir þingmenn jafnvel endurskoða rekstrarleyfi þess, enda væri um að ræða grófa aðför að tjáningarfrelsinu," segir Árni Þór. Spurður hvort það sé mögulegt að leyfi fyrirtækjanna séu skoðuð sérstaklega vegna málsins, svarar Árni því til að það sé efnahags- og viðskiptaráðuneytis að ákveða slíkt.

Þess ber að geta að fundurinn sem um ræðir fór fram í desember, en umfjöllunarefni dómsmálsins varðaði greiðslugátt fyrir WikiLeaks, sem opnaði í júní á síðasta ári, um hálfu ári eftir að fundurinn fór fram.

Valitor hefur áfrýjað niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur til Hæstaréttar Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×