Innlent

Vill að fundargerðir ríkisstjórnar um félag Nubos verði opinberaðar

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, óskar eftir því að fundargerðir ríkisstjórnarinnar frá fundi þar sem fjallað var um stofnun íslensks félags í eigu Huang Nubo verði gerðar opinberar. Ívilnanasamningur var kynntur ríkisstjórninni í vor en engin ákvörðun var tekin. Aðkoma ríkisstjórnarinnar að málinu hefur í raun verið mjög lítil.

Nefnd á grundvelli laga um ívilnun vegna nýfjárfestinga mælti í vor með því að veita Huang Nubo ívilnun, meðal annars skattundanþágu, vegna uppbyggingar á Grímsstöðum á Fjöllum. Umsókn um ívilnun hefur þó ekki verið samþykkt af iðnaðarráðuneytinu.

Áform eru um að Nubo leigi jörðina af félagi í eigu sex sveitarfélaga á Norðausturlandi.

Hugmyndin með ívilnunarsamningunum er að hver og einn fjárfestingarsamningur fari ekki fyrir ríkisstjórn og Alþingi. Ívilnanasamningurinn við Nubo var kynntur fyrir ríkisstjórninni í vor, en engin ákvörðun var tekin. Iðnaðarráðherra hefur enga ákvörðun tekið í málinu, enda liggja ekki allir samningar fyrir. Þá hafa landaskipti ekki verið kláruð á jörðinni.

Það var svo hinn 12. júní sl. sem efnahags- og viðskiptaráðherra kynnti fyrir ríkisstjórn að Nubo yrði heimilað að stofna íslenskt einkahlutafélag, en það er forsenda þess að fjárfestingarsamningur á grundvelli laga um ívilnun vegna nýfjárfestinga nái fram að ganga. Ríkisstjórnin þurfti í raun ekki að samþykkja stofnun félagsins, heldur var minnisblað um málið kynnt ríkisstjórninni í upplýsingaskyni. Engin ákvörðun um ívilnun var tekin á þessum fundi.

Einu afskipti ríkisstjórnarinnar af málinu eru í raun þessi, samkvæmt heimildum fréttastofunnar og eru þau þar af leiðandi afar takmörkuð.

Lilja Mósesdóttir, alþingismaður, kallar eftir því á Facebook vefsíðu sinni að þjóðin fái strax allar upplýsingar úr fundargerðum ríkisstjórnarinnar þegar ákveðið var að heimila Nubo að stofna félag hér á landi og jafnframt bókun Ögmundar Jónassonar, innanríkisráðherra, sem gerði athugasemd við það á umræddum ríkisstjórnarfundi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×