Innlent

Sjálfstæðisflokkurinn í Árborg ræðir við Framsóknarflokkinn

Nýr meirihluti í bæjarstjórn Árborgar er í burðarliðnum eftir að einum bæjarfulltrúa Sjálfstæðismanna var tjáð að hún nyti ekki stuðnings flokkssystkina sinna.

Meirihluti sjálfstæðismanna í Árborg er í uppnámi en einn bæjarfulltrúa þeirra íhugar að ganga til liðs við minnihlutann. Sjálfstæðismenn eru með fimm bæjarfulltrúa af níu og hreinan meirihluta í Árborg. Einn af bæjarfulltrúunum þeirra, Elfa Dögg Þórðardóttir, íhugar hins vegar alvarlega að segja skilið við meirihlutann. Hún er að sögn óánægð með nýlega ákvörðun um að Árborg segi sig úr Skólaskrifstofu Suðurlands, sem er samstarfsverkefni sveitarfélaga á Suðurlandi um ýmsa sérþjónustu og ráðgjöf í leik- og grunnskólum. Sjálf er hún formaður SASS, eða Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga.

Á meðan Elfa Dögg fundaði með fulltrúum Samfylkingarinnar í gærkvöldi funduðu bæjarfulltrúar Sjálfstæðismanna á heimili Eyþórs Arnalds oddvita þeirra. Við reyndum að ná tali af Eyþóri í dag en hann vildi ekki veita okkur viðtal. Það var þó á honum að heyra að málið væri flókið og að staða Elfu Daggar í meirihlutanum væri óráðin.

Þannig hefur staðan verið að minnsta kosti síðan á mánudag, þegar Elfu var tjáð að hún nyti ekki stuðnings flokkssystkina sinna. Ástæðurnar eru meðal annars þær að Elfa kom í veg fyrir Árborg færi út úr samstarfi um skólaskrifstofu suðurlands eins og sjálfstæðismenn vildu.

Spurð um eigin stöðu svaraði Elfa fréttastofu: „Ég hreinlega veit það varla."

Elfa segist hafa heyrt af þreifingum sem nú eiga sér stað um myndun nýs meirihluta. Það hefur fréttastofa heyrt líka. Heimildir herma að Sjálfstæðismenn ætli að reyna á að fá bæjarfulltrúa Framsóknarmanna til liðs við Sjálfstæðisflokkinn um myndun meirihluta, hvort sem Elfa Dögg Þórðardóttir styðji slíkt samstarf, eða ekki.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×