Innlent

Blindir geta loks leikið eftir nótum

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Blindir og sjónskertir Íslendingar geta nú með tilkomu nýrrar kennslubókar leikið tónlist eftir nótum, en þeir hafa hingað til þurft að reiða sig eingöngu á heyrnina í tónlistarnámi. Möguleikinn veitir frelsi segja höfundar bókarinnar.

Tónlistarnám blindra og sjónskertra hefur fram að þessu verið ansi strembið enda hefur þessi hópur ekki getað reitt sig á nótur líkt og þeir sem sjá.

„Þannig að allt sem viðkomandi lærði þurfti kennarinn að spila fyrir hann og það var oft tekið upp og farið með það heim og hlustað. Svolítið tímafrekt," segir Hlynur Þór Agnarson, tónlistarkennari.

Eyþór og Hlynur tóku höndum saman og gáfu í gær út kennslubók í tónfræði og punktaletursnótum en þær hafa hingað til ekki verið notaðar hér á landi þrátt fyrir að þekkjast erlendis. Þeir félagar segjast hafa fundið fyrir feimni hjá íslenskum tónlistarkennurum gagnvart blindum nemendum og vona að nú verði breyting þar á.

„Við vildum hafa þetta þannig að það þyrfti ekki bara að vera annað hvort ég eða Eyþór sem gæti kennt þetta heldur gæti í raun hvaða tónlistarkennari sem er með tónfræðiþekkingu kennt úr bókinni. Þess vegna ákváðum við að setja hana upp annars vegar sem punktaletursbók fyrir nemandann og svo sem venjulega svartletursbók með venjulegum nótum fyrir kennarann," segir Eyþór Kamban Þrastarson.

„Þú getur verið að læra sjálfur á þínum eigin forsendum og hraða. Þú ert ekki háður neinum öðrum upp á það að geta hlustað á lagið eða fá einhverjar hugmyndir um það. Þetta er bara allt fyrir fram þig og þú sérð bara um þetta svolítið sjálfur. Þetta er náttúrulega rosalega mikið frelsi."

Og þá er kannski líka auðveldara að semja tónlist? „Já, semja tónlist og skrifa hana niður svo hún sé aðgengileg öðrum. Sá möguleiki hefur ekki verið þannig séð til staðar hingað til."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×