Fótbolti

Breska lögreglan rannsakar twitter-árásir á Cole og Young

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Ashley Cole og félagar eftir tapið á móti Ítalíu.
Ashley Cole og félagar eftir tapið á móti Ítalíu. Mynd/AFP
Ensku landsliðsmönnunum Ashley Cole og Ashley Young var úthúðað á twitter eftir að þeir brenndu af vítum í vítakeppninni á móti Ítalíu í átta liða úrslitum EM. Þetta gekk svo langt að breska lögreglan hefur hafið lögreglurannsókn meðal annars vegna kynþáttaníðs í skjóli twitter.

Ashley Young, leikmaður Manchester United, skaut í slá í þriðju vítaspyrnu Englendinga en Ashley Cole, leikmaður Chelsea, lét Buffon verja frá sér. Enska landsliðið tapaði því enn einu sinni í vítakeppni og datt enn einu sinni út úr átta liða úrsltium á stórmóti.

Lögreglan er að skoða sérstaklega twitter-síðu sem hefur aðsetur í London en enginn hefur enn verið handtekinn vegna málsins.

Enska knattspyrnusambandið hefur fordæmt meðferð leikmanna sinna á twitter. „Við höfum miklar áhyggjur af þessum fréttum. Cole og Young gáfu allt sitt fyrir enska landsliðið á EM og það er hræðilegt að fólk skrifi svona hluti um þá. Við styðjum lögreglurannsóknin til þess að reyna að komast að því hverjir standa á bak við þetta," segir í yfirlýsingu frá enska sambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×