Innlent

Íslenskt frímerki selt á milljón - frímerkjasöfnun góð fyrir sálina

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Magni R. Magnússon segir það gott fyrir sálina að safna frímerkjum.
Magni R. Magnússon segir það gott fyrir sálina að safna frímerkjum. Mynd / Valgarður Gíslason
Íslenskt frímerki var selt fyrir eina milljón króna á uppboði hjá sænsku fyrirtæki í Malmö. Tengiliður fyrirtækisins á Íslandi segir mikla eftirspurn eftir íslenskum frímerkjum í heiminum.

Frímerkið sem var selt á dögunum var svokallað ,,í gildi" yfirprentað frímerki frá árinu 1902. Magni R. Magnússon, umboðsmaður uppboðsfyrirtækisins Postiljonen á Íslandi segir fólk því miður hafa rifið mörg frímerki af umslögum í gegnum tíðina en þannig minnki verðmæti frímerkjanna.

„En öll frímerkin íslensku sem eru fyrir aldamót á umslögum þau hlaupa á tugum þúsunda og skildingamerkin sem eru fyrstu frímerkin sem komu 1873, ef þú finnur svoleiðis umslag með skildingafrímerki ertu með 2 til 5 milljónir jafnvel þó þú sért með gamalt, jafnvel skítugt umslag."

Árið 1876 var svo skipt úr skildingum í aurafrímerki. Aurafrímerkin á umslögum hlaupa á tugum og stundum hundruð þúsunda. Árið 1902 voru frímerkin sem áttu að koma með Kristjáni níunda ekki komin.

„Þá var gripið til þess ráðs að yfirprenta auramerkin með framlengingartíma í eitt ár."

Merkið sem seldist á eina milljón er eitt þessara frímerkja. Og Magni segir markað fyrir íslensk frímerki.

„Sérstaklega á umslögum. Svo er annað sem fólk á að átta sig á. Það er líka verðmæti í gömlum póstkortum, bæði með og án frímerkja."

Hann segir kaupendur gjarnan vera ríka einstaklinga sem slappa af í frímerkjum.

„Það er mjög hollt að safna frímerkjum. Gott fyrir sálina. Þegar við félagarnir í frímerkjamiðstöðinni vorum á okkar mestu uppgangsárum var stór hópur manna úr heilbrigðisgeiranum og víðar sem voru í miklu stressi á daginn sem safnaði frímerkjum. Þeir sögðu að þetta þetta væri það besta sem þeir gerðu. Þetta hreinsar hugann. Við förum endurnærðir í rúmið," segir Magni að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×